Innanríkisráðuneytið heyrir sögunni til

mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Formlega séð heyrir innanríkisráðuneytið nú sögunni til eftir að samþykkt var á Alþingi í síðasta mánuði að skipta því upp í annars vegar dómsmálaráðuneyti og hins vegar samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti. Við því er þó að búast að einhvern tíma taki að koma breytingunni að öllu leyti í framkvæmd.

Fyrir breytinguna höfðu tveir ráðherrar verið í innanríkisráðuneytinu í kjölfar þess að núverandi ríkisstjórn var mynduð. Sigríður Andersen dómsmálaráðherra og Jón Gunnarsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.

Saga innanríkisráðuneytisins var ekki mjög löng en það tók til starfa 1. janúar 2011 eftir sameiningu dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins.

Þrjú gegndu embætti innanríkisráðherra: Ögmundur Jónasson, þáverandi þingmaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Ólöf Nordal en þær sátu báðar á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Fyrstur til að gegna sérsöku embætti dómsmálaráðherra var Jón Magnússon 1917-1920 en hann var þá jafnframt forsætisráðherra. Fyrir þann tíma frá tilkomu heimastjórnarinnar 1904 hafði Ísland einn ráðherra sem fór með alla málaflokka og þar með talin dómsmálin.

Fyrstur til þess að gegna sérstöki embætti samgönguráðherra var Alþýðuflokksmaðurinn Emil Jónsson en það var í nýsköpunarstjórninni svonefndri frá 1944-1947 undir forsæti Ólafs Thors, þáverandi formanns Sjálfstæðisflokksins.

mbl.is