Íslensk flugfreyja bjargaði lífi barns

Halldóra Guðjónsdóttir.
Halldóra Guðjónsdóttir.

Halldóra Guðjónsdóttir, flugfreyja hjá WOW air, var stödd í versluninni Primark í Boston þegar hún heyrði móður þriggja til fjögurra ára gamallar stúlku öskra á hjálp. Stúlkan hafði farið í öndunarstopp og var Halldóra ekki lengi að bregðast við.

Atvikið átti sér stað í janúar og segir Halldóra í viðtali við Morgunblaðið mikilvægt að hafa fengið þjálfun í skyndihjálp, en enginn annar viðstaddur virtist vita hvernig skyldi bregðast við.

„Þetta gerðist miklu hægar í höfðinu,“ segir Halldóra um upplifun sína. „Ég hugsaði bara; þú verður að bjarga henni, það er enginn annar að fara að gera það.“

Móðir stúlkunnar var í mikilli geðshræringu þegar hún uppgötvaði að dóttir hennar var ekki með meðvitund. Að sögn Halldóru hafði móðirin engin tök á því sjálf að hringja á sjúkrabíl svo Halldóra vatt sér að næstu manneskju í búðinni og sagði henni að hringja á sjúkrabíl. Því næst hljóp hún að stúlkunni og hóf endurlífgun.

„Það var eins og hún hefði verið að reyna að kasta upp og ég hélt því að eitthvað væri fast í hálsinum á henni,“ útskýrir Halldóra. Stúlkan var stíf í munninum og andaði ekki. 

Þjálfunin skipti sköpum

„Þetta var eins og að halda á blautu handklæði – engin hreyfing, ekki neitt.“ Þá byrjaði Halldóra að hnoða stúlkuna og blása. „Ég hélt bara áfram þangað til hún byrjaði að anda og hún opnaði augun aðeins, en þau voru svolítið flöktandi.“ Hún segir að liðið hafi um 3-4 mínútur þar til sjúkraflutningamenn komu hlaupandi og um 10 mínútur þangað til sjúkrabíllinn kom. Þessar 3-4 mínútur sem Halldóra veitti endurlífgun hafa skipt sköpum fyrir líf stúlkunnar, en hefði liðið lengri tími hefði það getað haft alvarleg áhrif á heilastarfsemi.

Segir Halldóra að þarna hafi sýnt sig hversu mikilvægt það sé að kunna skyndihjálp. „Ég var svo þakklát fyrir að hafa fengið þessa þjálfun,“ segir Halldóra. „Hver sem er getur lent í þessu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »