Með lagni gátu allir lagt við Leifsstöð

Allt fullt á stæðunum við Leifsstöð.
Allt fullt á stæðunum við Leifsstöð. mbl.is/Hilmar Bragi

Enn hefur ekki þurft að vísa neinum frá langtímabílastæðunum við Leifsstöð í dag en mikla útsjónarsemi hefur þurft til að allir fái stæði. Tíu starfsmenn Isavia eru að störfum á stæðunum til að leiðbeina fólki og leggja bílum. Isavia hefur í dag hvatt þá sem eru að fara í flug til að láta aka sér að Leifsstöð, taka rútu, strætó eða leigubíl þar sem langtímastæðin eru orðin full. Margir hafa farið að þeim tilmælum í dag.

Bílastæðin við Leifsstöð eru 2.350 talsins og eru nýtingin að jafnaði um 43%. Um páska, þar sem fjölmargir Íslendingar eru á faraldsfæti, eru stæðin alltaf vel nýtt og nokkurs konar sprenging hefur svo verið þessa páskana.

„Það var fyrirséð að það yrði mikil umferð,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia. Stæðunum hefur verið fjölgað um 350 frá síðustu páskum eða um 15%. Að auki var bætt við 600 stæðum sérstaklega til að mæta hinni gríðarlegu páskaumferð. „Það reyndist ekki nóg. Þannig að nú erum við að tala um 25-30% yfirbókun á stæðunum sem er meiri aukning en við gerðum ráð fyrir. Þarna eru meira en 50% fleiri bílar en í fyrra.“ Í fyrra voru bílarnir á stæðinu 2000 og nú eru þeir um 3000.

Guðni segir að þegar ljóst var í hvað stefndi hafi fréttatilkynningar verið sendar út, samfélagsmiðlar notaðir til að dreifa upplýsingum sem og samstarf haft við flugfélögin til að upplýsa farþega um stöðuna.

Fá lyklana og færa bíla ef þarf

Enn sem komið er hefur með lagni verið hægt að koma öllum bílunum fyrir svo engum hefur þurft að vísa frá. Enginn hefur því misst af flugi vegna þessa vandamáls. Guðni segir tíu starfsmenn Isavia hafa aðstoðað bílstjórana við að finna bílunum pláss. „Þeir reyna að koma bílum fyrir alls staðar þar sem er pláss. Taka svo niður nöfn, símanúmer og fá bíllykla ef færa þarf bílana síðar. Við höfum þurft að leggja bílum fyrir aðra bíla til að reyna að koma öllum fyrir.“

Guðni segir ljóst að bæta þurfi við enn fleiri bílastæðum til að mæta aðstæðum sem þessum. Páskarnir eru álagsmesta tímabilið á stæðunum. Þá eru Íslendingar mikið á ferðinni en það eru aðallega þeir sem nota stæðin. Guðni segir að engu að síður verði Isavia að vera í stakk búin til að sinna þörfum fólks á mestu álagstímunum hverju sinni. „Við viljum engum vísa frá og við þurfum því að bæta við stæðum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert