Þrjú eru í haldi lögreglunnar á Akureyri í tengslum við hnífstungu og fíkniefnamál sem kom upp í kjölfar árárásar í Kjarnaskógi í gær. Sá sem varð fyrir árásinni er ekki lengur í lífshættu.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru alls sex handteknir í tengslum við málin tvö en þremur var sleppt að loknum yfirheyrslum. Verið er að yfirheyra par og árásarmanninn á lögreglustöðinni á Akureyri en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verður fram á gæsluvarðhald.
Um klukkan 14:00 í gær barst lögreglunni á Akureyri tilkynning um að maður hefði verið stunginn með hníf tvívegis í lærið í Kjarnaskógi, eftir að ósætti og átök brutust út á milli aðila þar. Í fréttum RÚV í hádeginu kom fram að það hafi verið unnusta hans sem hringdi en hún bjó strax um sárið sem varð honum væntanlega til bjargar.
Fórnarlambið var flutt á sjúkrahús en það blæddi töluvert úr sárum þess, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hann fór í aðgerð á sjúkrahúsinu sem tók nokkrar klukkustundir en er ekki lengur í lífshættu.
Sá sem grunaður er um að hafa stungið hann var síðan handtekinn í bifreið á Akureyri
um kvöldmatarleytið en í bifreiðinni sem hann var í, fundust meðal annars barefli og exi.
Skömmu síðar var par handtekið grunað um aðild að málinu og fannst nokkuð magn af fíkniefnum í fórum þeirra. Alls voru 5 handteknir í tengslum við það fíkniefnamál. Parið og árásaraðilinn í hnífstungumálinu voru vistuð í fangageymslu en þremur aðilum var sleppt að loknum yfirheyrslum vegna fíkniefnamálsins.
Þetta er ekki eina málið sem kom upp hjá lögreglunni á Akureyri í gær því um morguninn var lögregla kölluð til vegna manns sem lét ófriðlega á slysadeild Sjúkrahússins á Akureyri. Þegar verið var að reyna róa manninn niður og veita honum hjálp, skallaði hann lögreglumann í andlitið. Maðurinn var yfirbugaður og í framhaldi fékk hann þá aðstoð sem í boði var á sjúkrahúsinu. Lögreglumaðurinn var bólginn í andlitinu og fékk skurð á nefið.