Byggingin nefnd Veröld – hús Vigdísar

Veröld – hús Vigdísar.
Veröld – hús Vigdísar. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nýbygging, sem helguð verður kennslu í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og starfsemi Vigdísarstofnunar – alþjóðlegrar miðstöðvar tungumála og menningar, hefur fengið nafnið Veröld – hús Vigdísar. Tilkynnt var um það í Hátíðarsal Háskóla Íslands í dag, að því er segir í fréttatilkynningu.

Efnt var til samkeppni um heiti á húsið og bárust alls 800 tillögur í keppnina. Það kom í hlut valnefndar að velja bestu tillögurnar. Hana skipuðu Eiríkur Smári Sigurðarson, fulltrúi hugvísindasviðs, formaður, Geir Þórarinn Þórarinsson, fulltrúi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, Guðrún Kvaran, fulltrúi Vigdísarstofnunar, og Inga Jóna Þórðardóttir, fulltrúi rektors. Nefndin komst að einróma niðurstöðu sem var staðfest af háskólaráði 6. apríl síðastliðinn.

Fimm af sjö verðlaunahöfum og fulltrúum þeirra í nafnasamkeppninni ásamt …
Fimm af sjö verðlaunahöfum og fulltrúum þeirra í nafnasamkeppninni ásamt Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Guðmundi Hálfdánarsyni, forseta hugvísindasviðs, og Auði Hauksdóttur, forstöðumanni Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Nafn hússins er samsett úr tveimur tillögum sem bárust, annars vegar Veröld og hins vegar Hús Vigdísar. Tvær tillögur bárust um nafnið Veröld, frá þeim Huldu Egilsdóttur og Sveini V. Ólafssyni.

Tillögu um viðbótina, hús Vigdísar, áttu fimm konur, þær Ingunn Björnsdóttir, Jónína Hallgrímsdóttir, Kristín Helgadóttir Ísfeld, Sesselja Friðgeirsdóttir og Sigríður B. Guðjónsdóttir. Verðlaunahafarnir fengu allir blómvönd og veglega bókagjöf.

Veröld – hús Vigdísar verður formlega opnað við hátíðlega athöfn á sumardaginn fyrsta, fimmtudaginn 20. apríl. Efnt verður til hátíðardagskrár helgaðri tungumálum í Háskólabíói af því tilefni. Jafnframt verður fyrsta sýningin í sýningarsal hins nýja húss opnuð, en hún er helguð störfum og hugðarefnum helsta hvatamanns hússins, Vigdísar Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert