Útsýni við Oddnýjarlaugina

Siggeir Ævarsson, til vinstri, og Eggert Sólberg Jónsson á nýja …
Siggeir Ævarsson, til vinstri, og Eggert Sólberg Jónsson á nýja útsýnispallinum á Staðarbergi. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verið er að leggja lokahönd á uppsetningu útsýnispalls við svonefndan Brimketil yst á Staðarbergi vestan Grindavíkur. Þar verður hægt að sjá svarrandi brim berja kletta og sjá sérkennilega laug í sjávarborðinu, sem flæðir í þegar hásjávað er. Katlarnir þarna eru raunar fleiri, en þeir mynduðust í ævarandi núningi brims við hraunkletta.

„Hér á Reykjanesi eru áhugaverðir staðir í náttúrunni. Við viljum gera þá ferðafólki aðgengilega,“ segir Eggert Sólberg Jónsson, framkvæmdastjóri jarðvangsins Reykjanes Geopark.

Á ystu nöf

Eggert Sólberg og Siggeir Ævarsson, upplýsingafulltrúi Grindavíkurbæjar, sýndu Morgunblaðinu aðstæður í fyrradag. Þá var hífandi rok á Reykjanesi og brim bar af hafi.

„Við þessar aðstæður sannar útsýnispallurinn gildi sitt vel. Hér getur fólk staðið á ystu nöf, fengið pusið yfir sig og blotnað,“ segir Siggeir.

Brimketill. Undrasmíð í berginu.
Brimketill. Undrasmíð í berginu. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Það var um 1990 sem Brimketill komst fyrst á dagskrá. „Fólk rölti og skoðaði staðhætti undir leiðsögn heimamanns, sem benti þeim á brimketil. Og þar með var nafnið eiginlega komið, lítið b varð stór stafur og málið afgreitt.“

Eggert vekur athygli á því að stundum sé ketillinn raunar kallaður Oddnýjarlaug. Greinir gömul þjóðsaga frá frá nátttröllinu Oddnýju sem bjó í Háleyjabungu, rétt vestan við Staðarberg, ásamt hyski sínu. Eina nóttina fór hún að Ræningjaskeri sem er þarna út fyrir til að nálgast hvalhræ sem rak að landi.

Á leiðinni til baka hvíldi hún lúin bein og baðaði sig í katlinum og líkaði svo vel að hún gleymdi sér. Hélt fyrst af stað heim þegar sólin var að koma upp. Að sólskinið breyti tröllum í grjót er raunar vel þekkt stef í íslenskum þjóðsögum og um aldir alda stóð þarna úti fyrir klettadrangur sem sjórinn á endanum braut niður.

Framlag úr Framkvæmdasjóði

Uppbyggingin við Brimketil er borguð með framlagi úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, sem veitt hefur 27 milljónir króna til verkefnisins. Bláa lónið og HS Orka hafa einnig lagt málinu lið en annað hefur verið greitt af Reykjanes Geopark, sem aftur nýtur stuðnings sveitarfélaganna á Reykjanesi og fleiri.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »