Olíuflutningabíll vegur salt á brúnni

Unnið er að því að koma olíuflutningabílnum upp á veginn.
Unnið er að því að koma olíuflutningabílnum upp á veginn. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Rétt fyrir hádegi lenti olíuflutningabíll á vegriði brúarinnar yfir Búðará í Hörgárdal og vegur hann nú salt á brúnni. Fjölmargir viðbragðsaðilar eru mættir á svæðið til að fyrirbyggja mögulegt mengunarslys. Bílstjóri flutningabílsins var fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri. Meiðsli hans eru ekki talin alvarleg.

Slysið átti sér stað á móts við bæinn Myrká. Björgunarsveitarmenn frá Súlum og slökkviliðsmenn með búnað til straumvatnsbjörgunar voru sendir á staðinn til þess að vinna að mengunarvörnum.

Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að bíllinn standi tæpt og segja megi að hann vegi salt á brúnni. Helsta hættan nú stafi þó af mögulegum olíuleka en slysið varð á vatnsverndarsvæði.

Olíu­flutn­inga­bíll lenti á vegriði brú­ar­inn­ar yfir Búðará í Hörgár­dal.
Olíu­flutn­inga­bíll lenti á vegriði brú­ar­inn­ar yfir Búðará í Hörgár­dal. Ljósmynd/Landsbjörg

Engin olía lekur úr bílnum í augnablikinu, að sögn Reimars Viðarssonar í svæðisstjórn björgunarsveitanna í Eyjafirði. Aðgerðir björgunarsveitarmanna og slökkviliðs miða að því að koma upp skjólgirðingu í ánni fari svo að olía taki að leka. 

„Bíllinn er enn á brúnni,“ segir Reimar. Kranabílar eru á leiðinni á vettvang til að rétta bílinn við og ná honum af slysstað. „Það þarf að lyfta honum upp og koma honum alveg upp á brúna.“

Hann segir allt kapp nú lagt á að tryggja að mengunarslys eigi sér ekki stað. Margir aðilar komi að því og eigi sinn þátt í aðgerðunum. Hann á von á því að vinna á slysstað haldi áfram fram eftir degi.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert