Inga Sæland ætlar í borgarmálin

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. mbl.is/Eggert

Flokkur fólksins meira en tvöfaldaði fylgi sitt á sléttum mánuði í könnum MMR og mælist nú með 6,1 prósents fylgi. Niðurstöður nýrrar könnunar voru birtar í morgun. Flokkurinn er þannig orðinn stærri en Viðreisn og Björt framtíð og sjötti stærsti flokkur landsins á eftir Framsóknarflokknum.

Flokkurinn bauð fram í síðustu þingkosningum og hlaut þá 3,5 prósent atkvæða og náði ekki inn manni. Flokkurinn berst gegn fátækt og spillingu, fyrir afnámi okurvaxta og verðtryggingu, fyrir heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og að allir geti eignast eigið þak yfir höfuðið, að því er segir í stefnuskrá flokksins sem finna má á vef flokksins.

Inga Sæland leiðir listann í borgarstjórnarkosningum

Innan Flokks fólksins er nú unnið hörðum höndum að undirbúningi næstu sveitarstjórnarkosninga sem fara fram á næsta ári. Boðið verður fram í sem flestum sveitarfélögum og verður það sjálfur oddviti flokksins sem leiðir lista flokksins í borginni.

„Það er kominn tími á gjaldfrjálsa grunnskóla og gjaldfrjáls mötuneyti, þau séu ekki bara fyrir börn þeirra sem hafa efni á því,“ segir Inga sem var að vonum í skýjunum með niðurstöður skoðanakönnunarinnar sem birtist í morgun. „Þetta er framar öllum vonum og styrkir okkur í þeirri trú að við séum tilbúin í breytingar.

Við bjóðum fram alls staðar þar sem grasrótin er tilbúin að fara fram,“ segir Inga. „Við ætlum að byggja upp sterka og öfluga forystu, framtíð flokksins er ekki bara ég. Við þurfum sterka og öfluga forystu af heiðarlegu baráttufólki sem helst allir þekkja.“

Tæplega þúsund manns sóttu sumarþing flokksins

Spurð hvaðan þetta nýja fylgi komi segir Inga að líklega sé fylgið þetta hlaupandi fylgi milli smáu flokkanna. „Ég býst við að fólk sé farið að sjá hvað er á bak við hugsjónina og kalli eftir meira réttlæti og breytingum,“ segir Inga. Þá stóð Flokkur fólksins fyrir sumarþingi 15. júlí sl. í stóra sal Háskólabíós og sóttu fundinn um 900 manns.

Inga segist ekki farin að velta þingmennsku fyrir sér og hugsar hún flokkinn fyrst og fremst sem baráttuafl fyrir réttlátu samfélagi fyrir alla. „Þingmaðurinn er ekki í maganum, en ef það er þangað sem ég fer þá mun gusta um þingið.“

mbl.is