„Þeir eru að selja undir okkar kostnaðarverði“

Finnur Árnason, forstjóri Haga.
Finnur Árnason, forstjóri Haga. mbl.is/Árni Sæberg

Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir að fyrirtækið sé komið fyrir vind hvað varðar stórfelldar umbreytingar á rekstrinum, búið sé að fækka verslunum um 20 þúsund fermetra og lykilverslanir séu komnar í sitt besta horf. Hann segir áhrif Costco mikil og varanleg. 

Í uppgjöri Haga fyrir annan ársfjórðung kom fram að sala í mat­vöru­versl­un­um fyrirtækisins hafi dregist sam­an um 7,1% í krón­um talið miðað við sama tíma­bil í fyrra. Finnur segir helstu áhrifaþættina vera fjóra. 

Í fyrsta lagi er veruleg verðhjöðnun á þessu tímabili sem er meiri og yfir lengra tímabil en fordæmi eru fyrir. Meðalstyrking á milli ára í okkar innkaupum í erlendri mynt er 15,1% sem þýðir að við erum að upplifa verðhjöðnun á sama tíma og við erum með innlendar kostnaðarhækkanir.

Annar áhrifaþáttur eru gjörbreyttar markaðsaðstæður með innkomu Costo á markaðinn sem hefur í sumum tilfellum selt undir kostnaðarverði Haga. 

„Við erum stærsti kaupandinn á Íslandi og ég á bágt með að trúa því að þeir séu með betri innkaupaverð. Þeir eru að selja undir okkar kostnaðarverði, það liggur fyrir,“ segir Finnur. „Þetta eru mikil áhrif og ég met það svo að þau séu varanleg.“

Tímamótamánuður

Þriðji þátturinn eru stórfelldar umbreytingar á félaginu. Verslunarfermetrum fækkað um tæplega 20 þúsund undanfarin tvö rekstrarár og áætluð fækkun næstu 2-3 ár er um 7 þúsund fermetrar. Annars vegar er um að ræða endanlegar lokanir eins og á verslun Debenhams en hins vegar tímabundnar lokanir eins og Hagkaupa í Kringlunni sem opnaði aftur síðustu helgi. 

„Við höfum ekki verið með tekjur á meðan þessar lokanir áttu sér stað og starfsfólkið var flutt milli búða eða í önnur verkefni. Ég lít á þennan mánuð sem ákveðin tímamót þar sem við erum búin með þessar stóru breytingar sem hafa verið í framkvæmd undanfarin tvö ár.“

Fjórði þátturinn eru síðan umtalsverðar kjarasamningshækkanir. 

Jákvæð gengisþróun fram undan

Þrátt fyrir að kostnaðarhækkanir, samdrátt og gjörbreytt markaðsumhverfi segist Finnur sjá ýmis jákvæð teikn á lofti. 

„Hlutfallsleg framlegð félagsins helst óbreytt þrátt fyrir allar þessar breytingar og það eru komnar þrjár verðkannanir sem sýna að Bónus sé með flestar vörur á lægsta verðinu. Það sýnir að við séum að skila styrkingu krónunnar til viðskiptavina okkar og að Bónus standi eftir sem ódýrasti valkosturinn á Íslandi.“

Auk þess nefnir hann að nú sé hagkerfið að sigla inn í tímabil þar sem gengi krónunnar sé nær því sem það var fyrir ári.

Hlutabréf í Högum féllu um allt að níu prósent þegar markaðir opnuðu í morgun en lækkunin hefur að hluta til gengið til baka og stendur nú í tæpum sex prósentum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert