Þetta er engin kvennaíþrótt!

Guðríður Halldórsdóttir skorar sigurmarkið í leiknum fræga 1970.
Guðríður Halldórsdóttir skorar sigurmarkið í leiknum fræga 1970. Bjarnleifur Bjarnleifsson (1915-1987)

„Þetta var gaman, en ég veit ekki hvort við höldum áfram – þetta er engin kvennaíþrótt. Við lékum ekki eftir neinu ákveðnu kerfi. Við stilltum bara liðinu upp í vörn og sókn, en létum þetta svo bara ráðast. Við lærðum reglurnar lítillega í rútunni á leiðinni hingað – meira var það ekki.“

Þetta sagði Guðbjörg Jónsdóttir, fyrirliði Keflavíkurliðsins, í Morgunblaðinu eftir fyrsta opinbera kvennaleikinn í knattspyrnu sem fram fór hér á landi. Það var sumarið 1970 á undan landsleik Íslands og Noregs í karlaflokki á Laugardalsvellinum og var leiktíminn tvisvar sinnum tíu mínútur. Leikið var gegn úrvalsliði Reykjavíkur sem vann leikinn, 1:0, með marki frá Guðríði Halldórsdóttur, Fram. Guðbjörg gat þess að flestir leikmenn liðsins væru handknattleikskonur og hefðu verið að leika knattspyrnu í fyrsta skipti.

Þetta er meðal þess sem kemur í fram í nýrri bók Stelpurnar okkar - saga knattspyrnu kvenna á Íslandi frá 1914 eftir Sigmund Ó. Steinarsson sem kemur út um miðjan næsta mánuð. Útgefandi er Knattspyrnusamband Íslands. 

Viðhorf Guðbjargar er lýsandi fyrir þennan tíma en lengi vel þótti ekki nægilega „kvenlegt“ að iðka knattspyrnu. Átti það viðhorf bæði við um konur og karla. 

Fyrsta Íslandsmót kvenna fór fram 1972 og lauk með sigri FH en eiginlegur uppgangur í íþróttinni hefst þó ekki fyrr en eftir 1980. Önnur bylgja kom svo eftir 1990. Eftir það þekkjum við söguna, kvennalandsliðið hefur í þrígang tekið þátt í lokamóti EM, nú síðast í Hollandi í sumar, þangað sem þúsundir áhangenda fylgdu stelpunum okkar að heiman. 

„Þetta var meiri þolraun en hjá strákunum; það var dýpra á heimildunum og ég átti ekki eins mikið í mínum fórum sjálfur. Ég þurfti að fara út á akurinn og vera þolinmóður. Þar átti við hið fornkveðna: Leitið og þér munuð finna!“ segir Sigmundur um tilurð bókarinnar.

Þetta á ekki síst við um myndefnið en víða var grafið og Sigmundur unni sér ekki hvíldar fyrr en hann hafði fundið myndir af öllum Íslandsmeisturum kvenna frá því fyrsta mótið fór fram árið 1972. „Raunar þurfti ég að breyta bókinni og stækka hana úr 352 síðum í 512 á lokasprettinum vegna mynda og upplýsinga sem komu fram. Sem var auðvitað mjög ánægjulegt,“ segir Sigmundur en eins og fyrri bækurnar er þessi ríkulega myndskreytt, auk þess sem kort og töflur eru á sínum stað.

Óhætt er að fullyrða að Sigmundur hafi bjargað menningarverðmætum með grúski sínu vegna ritunar téðra bóka; á það bæði við um konur og karla. Að því mun íslensk knattspyrna búa um ókomna tíð. Hann er KSÍ þakklátur fyrir að hafa hvatt til verksins og nefnir Geir Þorsteinsson, fyrrverandi formann KSÍ, sérstaklega í því sambandi. Án áhuga hans á því að varðveita sögu knattspyrnu á Íslandi væri þetta verk ekki að koma út.

Nánar er rætt við Sigmund og fjallað um bókina í máli og myndum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Fyrsta kvennaliðið á Íslandi, Fótboltafélagið Hvöt á Ísafirði árið 1914.
Fyrsta kvennaliðið á Íslandi, Fótboltafélagið Hvöt á Ísafirði árið 1914.
Kápa bókarinnar.
Kápa bókarinnar. Picasa
Landsliðskonur fagna fyrsta sigrinum, gegn Sviss 1985.
Landsliðskonur fagna fyrsta sigrinum, gegn Sviss 1985.
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert