Nemendur FÁ buðu Merkel til Íslands

Nemendurnir með Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem ræddi við þá um …
Nemendurnir með Angelu Merkel Þýskalandskanslara sem ræddi við þá um sjálfbærni. Birkir Örn er þriðji frá hægri í efstu röð. Ljósmynd/Bundesregierung/ Jesco Denzel

Fimm nemendur í Fjölbrautarskólanum í Ármúla hittu Angelu Merkel Þýskalandskanslara nú fyrir skemmstu og hikuðu ekki við að bjóða henni til Íslands er þau fréttu að hingað hefði kanslarinn aldrei komið. Birkir Örn Sveinsson, nemandi á náttúrfræðibraut FÁ, segir Merkel hafa verið áhugasama um Ísland.

Birkir Örn og hinir nemendurnir fjórir fóru ásamt tveimur kennurum til Stralsund í Þýskalandi til að taka þátt í vikulangri dagskrá á vegum Erasmus samstarfsverkefnisins „Think, Act, Work Sustainable“ þar sem sjálfbærni og nýsköpun eru aðalviðfangsefnið.

„Við kynntum þar hvernig Íslendingar búa til rafmagn úr hveraorku og jarðorku og hvernig við nýtum jarðvarðmann m.a. til að búa til salt,“ segir Birkir Örn. Þátttakendur komu frá samstarfskólum í Giulianova á Ítalíu, Pantin í Frakklandi og Stralsund í Þýskalandi.

Auk þess beið þátttakenda stíf dagskrá þar sem m.a. var heimsótt Miðstöðin fyrir endurnýtanlega orku í Neustrelitz, frumkvöðlasetrið í Parow og Háskólinn fyrir nytjavísindi í Stralsund.

Hápunkturinn fyrir flesta var hins vegar væntanlega er komið var við í þýska þinginu í Berlín og fundað með Merkel.

„Við sátum þingfund um stund og sáum þegar það var verið að ræða mál þar. Síðan skoðuðum við okkur um kring og héldum að því loknu til fundar við Merkel.“ Birkir Örn segir að þó að heimsóknin til Merkel hafi verið á dagskrá lengi hafi engu að síður verið óvíst hvort af henni yrði vegna þeirra stjórnarkreppu sem nú er í Þýskalandi. Ekki hefur tekist að mynda stjórn í landinu frá því að þingkosningar fóru fram í september.

„Merkel var búin að vera á krísufundum um morguninn þar sem að ekki tókst að koma saman stjórn, þannig að við vissum að þetta var svona happa og glappa. Hún gaf sér þó samt tíma til að hitta okkur,“ segir hann og kveður Merkel hafa verið alþýðlega.

„Hún spjallaði við okkur um sjálfbærni og hversu mikilvæg hún væri og um endurnýtanlega orku,“ segir Birkir Örn og kveður Merkel sem er efnafræðingur að mennt hafa verið nokkuð fróð um málaflokkinn. „Svo var hún líka áhugasöm um Ísland,“ bætir hann við.

Íslensku nemarnir voru ekki seinir á sér að bjóða Merkel til landsins og tók hún vel í boðið að sögn Birkis Arnar. „Hún sagðist hlakka til að koma til Íslands.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert