Námsmenn fái að leigja með eldri borgurum

Þjónustuíbúðir aldraðra við Norðurbrún. Ein íbúðanna verður leigð út til …
Þjónustuíbúðir aldraðra við Norðurbrún. Ein íbúðanna verður leigð út til námsmanns í tilraunaskyni. mbl.is/Golli

Velferðarráð hefur samþykkt að hefja tilraunaverkefni þar sem að háskólanemum verði boðið að leigja tvær þjónustuíbúðir í þjónustukjörnum fyrir aldraða.

Í fréttatilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að sambærileg verkefni hafi reynst vel hjá öðrum þjóðum, m.a. Hollendingum. „Með þessu verkefni er byggð brú milli kynslóða sem kemur námsmönnum vel bæði hvað húsnæðismál varðar og að eiga í jákvæðu samneyti við aldraða. Einnig eldri borgurum sem fá aukna félagslega virkni,“ segir í tilkynningunni.

Byrjað verður að bjóða til leigu íbúðir í þjónustuíbúðakjörnum í Lönguhlíð 3 og í Norðurbrún 1 þar sem búið er að kynna verkefnið fyrir íbúum sem veittu því góðar undirtektir. Þannig ætlar notendaráð í Norðurbrún að taka þátt í ráðningaferlinu, sem og fá að hafa skoðun á því hvernig háskólanemi verður valinn þangað til búsetu og starfa.

Leiga nemanna verður án þjónustugjalda og hússjóðs, sem þýðir að húsaleigan mun nema um 50.000 kr. á mánuði að teknu tilliti til húsnæðisstuðnings.  Skilyrði fyrir búsetu er 40 stunda vinnuframlag á mánuði sem greitt verður fyrir. Er það á svipuðum kjörum og hjá Félagsstofnun stúdenta, en þar eru í dag um 500 manns á biðlista eftir sambærilegu húsnæði.

Eru nemarnir hugsaðir sem viðbót við það starfslið sem nú þegar sinnir umönnun í þjónustuíbúðunum og á framlag þeirra fyrst og fremst að vera af félagslegum toga. Er þeim ætlað að verða hluti af samfélaginu í húsinu og getur virkni þeirra þannig m.a. falið í sér samneyti við íbúa á almennum nótum. Þannig gætu nemarnir boðið upp á námskeið sem miða að því að örva og efla íbúana í ýmis konar færni á borð við notkun samfélagsmiðla og snjalltækja eða í listsköpun. 

Háskólanemar gætu þá einnig, að því er segir í tilkynningunni, veitt „einstaklingsmiðaðan félaglegan stuðning við ákveðna íbúa sem eru sérlega einmana og einangraðir og til þeirra sem síst geta tekið þátt í hópastarfi.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert