Enn vanti nokkuð upp á

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala. mbl.is/Golli

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir ljóst að þrátt fyrir stuttan tíma hafi nýjum ráðherra heilbrigðismála tekist að setja mark sitt á fjárlagafrumvarpið sem lagt var fram á Alþingi í gær. Þetta kemur fram í forstjórapistli hans síðan í dag, þar sem hann brást einnig við yfirlýsingu kvenna í heilbrigðisþjónustu um kynbundið ofbeldi.

„Frá því frumvarpi sem lagt var fyrir í haust, og voru vægast sagt veruleg vonbrigði, hefur verið bætt við umtalsverðum fjármunum sem benda til aukins skilnings og þekkingar á starfi og rekstri spítalans.“

Engu að síður segir hann enn vanta nokkuð upp á til að spítalinn nái endum saman, og þá sé einungis miðað við óbreyttan rekstur, ekki neinar nýjungar, uppbyggingu eða endurreisn.

„Upplegg stjórnarflokkanna og ráðherra sjálfs gefa þó tilefni til bjartsýni um að frumvarpið taki viðunandi breytingum í meðförum þingsins. Við fylgjumst spennt með.“

mbl.is