Lítil hjálp við barnsmissi

Foreldrar virðast enn fá litla þjónustu fagaðila við barnsmissi af …
Foreldrar virðast enn fá litla þjónustu fagaðila við barnsmissi af slysförum. mbl.is/Eggert

„Hugmynd að ritgerðinni kviknaði árið 2013 þegar ég missti dóttur mína 17 ára gamla af slysförum. Sú vanlíðan var mikil og upp komu ýmis flækjustig í áfallinu þegar úrvinnslan hófst. Það varð til þess að mig langaði til að skoða hvort aðrir foreldrar sem misst höfðu börn sín af slysförum hefðu upplifað það sama,“ segir Hrönn Ásgeirsdóttir um tilurð meistararitgerðar sinnar, „Það sem ekki varð“. Barnsmissir; Upplifun og reynsla af stuðningi og þjónustu, sem hún skrifaði í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi verksins er Dr. Steinunn Hrafnsdóttir, dósent.

Markmið rannsóknarinnar var að fá innsýn í reynslu foreldra sem misst hafa börn af slysförum undir 18 ára aldri til að varpa ljósi á upplifun af stuðningi og íhlutun frá fagfólki, fjölskyldu og vinum og hvort þörf sé á frekari stuðningi þessum hópi til handa. Rætt var við sex foreldra þrjár konur og þrjá karla á aldrinum 39-54 ára sem höfðu misst barn af slysförum fyrir sex til 11 árum.

Hrönn Ásgeirsdóttir
Hrönn Ásgeirsdóttir Ljósmynd/Aðsend

Þetta er fyrsta rannsóknin hér á landi þar sem horft er sérstaklega til þessara þátta. Rannsókn Hrannar samræmist niðurstöðum úr erlendum rannsóknum. Þar sem 52% foreldrar upplifðu ekki nægilegan stuðning frá fölskyldu, vinum og fengu engan stuðning frá heilbrigðisstarfsmönnum.  

Í stuttu máli er niðurstaðan sú að allir foreldrar töldu sig hafa þurft og þurfa á mun meiri hjálp að halda, faglegri og eins fræðslu við þetta djúpa áfall sem barnsmissir er. Að missa barn er mögulega það erfiðasta sem nokkur manneskja gengur í gegnum á lífsleiðinni þar sem ýmis flækjustig koma upp. „Ég tel að það þurfi að bæta og að hafa samræmdar verkreglur um stuðning sem fólk fær hjá sveitarfélögum til þess að mæta þeim hópi foreldra sem eiga eftir að lenda í slíkum harmleik. Því miður þá á þetta eftir að halda áfram að gerast,“ segir Hrönn.

Foreldrar í lausu lofti og með lítinn stuðning 

Hún segir að það hafi komið sér á óvart hversu algengt það er að foreldrar séu í lausu lofti og afskiptir við slíkt áfall. Ekki hafi orðið mikil breyting á þeirri þjónustu sem þessi hópur hafi fengið milli ára. Hún nefnir sem dæmi að hún sjálf hafi fengið hjálp og stuðning fyrst um sinn á Akranesi þegar hún missti dóttur sína árið 2013 en það hafi verið í of skamman tíma.

Foreldrar virðast enn fá litla þjónustu fagaðila við barnsmissi af slysförum á þessu ári. Máli sínu til stuðnings vísar Hrönn til viðtals við hjón í Eyjafirði sem misstu son sinn af slysförum fyrr á þessu ári þar sem þau segja ekki nógu vel haldið utan um fólk í sorg. Þau gagnrýna meðal annars vinnulag á sjúkrahúsinu á Akureyri þegar fjölskyldur lenda í slíku áfalli. Viðtalið birtist á vísi.is í lok nóvember.

Hrönn hefur tileinkað verkinu öllum börnum sem látist hafa af …
Hrönn hefur tileinkað verkinu öllum börnum sem látist hafa af slysförum hérlendis. mbl.is/Styrmir Kári

Þegar foreldrar lenda í slíku áfalli gera þeir sér ekki grein fyrir þeirri hjálp sem þeir þurfa á að halda. Foreldrar glíma við ýmsa sálfélaglega erfiðleika sem birtast í kvíða, þunglyndi, fælni og sjálfsmorðshugsanir gera vart við sig. Foreldrar missa það frumkvæði til að leita sér hjálpar þar sem þeir eru lamaðir af sorg og öll orka þeirra fer í að meðtaka það sem gerðist. Telur Hrönn faglega íhlutun vera mikilvægan þátt til að leiða foreldra og fjölskyldu þeirra til að draga úr neikvæðum afleiðingum.

Ekkert foreldri í rannsókn Hrannar fékk skipulagt áfallateymi heim til sín sem aðstoðaði þau við ferlið. Einn faðirinn benti á að það er skipulögð áfallahjálp við atburðum eins og þegar búðir eru rændar og spyr hvers vegna það sé ekki þegar fólk verðum fyrir slíkum harmleik.

Afskiptur hópur og börn gleymast

„Þetta er afskiptur hópur og oft gleymast eftirlifandi börn. Það þarf að hlúa að þeim og sinna en foreldrarnir eru sjaldnast í stakk búnir til að gera það og börnin gleymast,” segir Hrönn. Hún tekur fram að systkinunum býðst áfallahjálp sem er greidd af ríkinu. Dæmi eru um að í gegnum þau hafi foreldrarnir nýtt sér þjónustuna sem margir segja að hafi bjargað lífi þeirra. „Börn sem taka á sig hlutverk sem þau hafa ekki þroska til að sinna geta átt við sálfélagslega erfiðleika að glíma við seinna meir. Við barnsmissir umturnast líf foreldra og barna þeirra sem hefur veruleg áhrif á þau bæði andlega og líkamlega á meðan þau aðlagast þessum breytingum,“ segir Hrönn.  

Það getur tekið foreldra um fimm ár að komast yfir það versta í sorgarferlinu og því ræddi Hrönn við foreldra sem höfðu misst barn fyrir sex til 11 árum. Hún tekur fram að fólk vinni úr sorginni á ólíkan hátt, það taki mislangan tíma að komast gegnum yfir erfiðasta hjallann og engir tveir geri það eins og munur er á milli kynjanna. Þess vegna þurfi fólk að fá einstaklingsmiðaða hjálp. Áfallið á fyrstu dögum og vikum á eftir er svo stórt að fólki er ekki sjálfrátt. Dæmi eru um að fólk festist á einhverju stigi í úrvinnsluferlinu og geti ekki rætt um hinn látna án þess að bresta í grát.     

Í stuttu máli er niðurstaðan sú að allir foreldrar töldu …
Í stuttu máli er niðurstaðan sú að allir foreldrar töldu sig hafa þurft og þurfa á mun meiri hjálp að halda, faglegri og eins fræðslu við þetta djúpa áfall sem barnsmissir er. AFP

Fólk er í mestri hættu fyrst um sinn og getur stofnað lífi sínu í hættu á fyrstu tveimur árunum. Hrönn vísar í rannsókn sem gerð var á mæðrum sem misstu börn af slysförum en þá jókst hættan um 133 % á fyrstu tveimur árunum. „Einn faðir var svo áttavilltur að þegar hann stoppaði á ljósum á leið í vinnuna vissi hann stundum ekki hvert hann var að fara. Fólk á til dæmis ekki að keyra bíl þegar því líður svona,“ segir Hrönn.

Foreldrar eru lengi að vinna sig út úr sorginni og læra að lifa með henni og þess vegna þarf fólk á stuðningi að halda við það. Þegar foreldrar leita sér aðstoðar er það hjá sérfræðingum þar sem einn tími að meðaltali kostar um 15.000 sem mætti ætla að það væri oft á fyrstu vikunum og síðar mánaðalega. Er verið að tala um verulegar upphæðir sem efnaminni foreldrar hafa alls ekki efni á. Það þarf að styðja foreldra í þessu ferli.

Ekkert foreldri í rannsókn Hrannar fékk skipulagt áfallateymi heim til …
Ekkert foreldri í rannsókn Hrannar fékk skipulagt áfallateymi heim til sín sem aðstoðaði þau við ferlið. mbl.is/Eggert

Aðstandendur þurfa líka leiðsögn til að geta hjálpað

Aðstandendur, fjölskyldur og vinir, vilja veita stuðning en þau vita oft ekki hvernig þau geta gert það, að sögn Hrannar. Þessi hópur þarf líka að fá fræðslu svo hann geti stutt fjölskylduna betur og viti hvernig foreldrunum komi til með að líða og hvers sé að vænta á næstu vikum og mánuðum.

„Það þarf líka að opna umræðuna um þetta svo fólk viti hvað það á að gera og geti stutt hvort annað. betur. Fólki finnst þetta of stórt því þetta er svo ótrúlega erfitt. Fólk veigrar sér við því að nálgast foreldra sem hafa misst börnin sín því það er erfitt að nálgast þá og er stundum hrætt um að segja eitthvað vitlaust.“

Foreldrar við barnsmissi sitja ekki við sama borð

Foreldrar sem missa barn sitt af slysförum eða vegna veikinda sitja ekki við sama borð, að sögn Hrannar. Þegar barn er veikt og liggur á spítala hefur fólk meiri tíma til að taka út sorgina smám saman auk þess er gott stuðningsteymi sem sinnir sálgæslu og fólk getur nýtt sér.  Íhlutun við foreldra sem missa barn af slysförum skiptir ekki síður miklu máli þar sem lítill aðdragandi er að því stóra áfalli sem skellur á foreldrum. 

„Mér finnst mikilvægt að vekja athygli á þessum gleymda hópi fólks sem er að takast á við djúpa sorg. Kerfið þarf að styðja foreldrana mun betur,“ segir Hrönn. Út frá niðurstöðum viðtalsrannsóknarinnar má álykta að þessi hópur sé látin afskiptalaus og stefnumótun vanti í málaflokknum. Hún vonast til að niðurstöður rannsóknar geti leitt til stefnumótunar í málaflokknum. Að skipulagt verkferli verði mótað á milli kerfa. Mikilvægt sé að samræma viðbrögð og áfallaáætlanir á milli sveitafélaga og sjúkrahúsa um skýrt verklag um hver gerir hvað þegar slík áföll dynja yfir.

Hún vill koma á framfæri þökkum fyrir að hafa fengið tækifæri til að vinna rannsóknina því hún hafi sjálf lært mikið þrátt fyrir að það hafi tekið sinn toll sérstaklega þegar foreldrar opnuðu sig með svo erfiða reynslu og voru tilbúnir að deila með henni. Hrönn færir þeim bestu þakkir fyrir þátttökuna. Hefur hún tileinkað verkinu öllum börnum sem látist hafa af slysförum hérlendis. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert