„Ætti að lækka byggingarkostnað“

Hluti Holtahverfis; meðal annars verður byggt á græna svæðinu hægra …
Hluti Holtahverfis; meðal annars verður byggt á græna svæðinu hægra megin við Krossanesbraut. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Með því að fá vilyrði fyrir lóðum til lengri tíma skapast svigrúm til að útfæra hagkvæma hönnun og leggja upp raðsmíðaverkefni sem ætti að geta lækkað byggingarkostnað félagsins,“ segir Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri húsnæðissamvinnufélagsins Búfesti, sem hyggst reisa 125 íbúðir á Akureyri.

Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að tryggja Búfesti aðgang að lóðum fyrir allt að 125 leigu- og búseturéttaríbúðir á tímabilinu 2018 til 2022 og eftir því sem samrýmist íbúðaþörf á hverjum tíma að mati bæjaryfirvalda. Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, skrifaði í morgun undir viljayfirlýsingu þess efnis ásamt fulltrúum Búfesti.

Búfesti á nú og rekur 234 íbúðir á Akureyri og í Norðurþingi. Félagið hefur óskað eftir því að fá lóðir strax í fyrstu úthlutun í Holtahverfi á Akureyri, neðan Krossanesbrautar, en nú er unnið að deiluskipulagi svæðisins, og vill hefjast handa strax á þessu ári. Íbúðir þar yrðu byggðar í samstarfi við Félag eldri borgara á Akureyri. Þá renna forsvarsmenn Búfesti hýru auga til ýmissa reita sem eru að verða til í þéttingartillögum aðalskipulags Akureyrar.

Búfesti starfar í dag norður í landi, sem fyrr segir, en vert er að geta þess að félagið hefur leitað eftir samstarfi við stéttarfélög, sveitarfélög og „velvildarfjárfesta“, eins og það er orðað í minnisblaði framkvæmdastjóra félagsins frá því í haust, „um átak til að efla og koma á fót neytendadrifnum íbúðafélögum sem víðast um landið“.

Eiríkur Björn, bæjarstjóri á Akureyri, segir að með undirritun viljayfirlýsingarinnar sé stigið ákveðið skref til að bæta húsnæðismarkaðinn á Akureyri og svara síaukinni spurn eftir húsnæði. „Húsnæðismarkaðurinn hér hefur verið í talsverðri uppsveiflu síðustu misserin og engin ástæða til að ætla að það breytist í bráð. Við finnum fyrir miklum áhuga fólks á að flytja til bæjarins og að sjálfsögðu viljum við leitast við að mæta þörfum allra þjóðfélagshópa eins og frekast er kostur. Í drögum að aðalskipulagi bæjarins 2018 til 2030 kemur einmitt fram það markmið að leigu- og búseturéttaríbúðum, sem reknar eru af neytendafélögum og án hagnaðarkröfu, verði gefinn forgangur og í reglum um úthlutun lóða er þetta einnig sérsatklega tekið fyrir,“ sagði Eiríkur í morgun.

Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búfesti, Guðlaug Kristinsdóttir, formaður félagsins, og Eiríkur …
Benedikt Sigurðarson, framkvæmdastjóri Búfesti, Guðlaug Kristinsdóttir, formaður félagsins, og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri, eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar í dag. mbl.is/Skapti Hallgrímsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert