Hætta á grjóthruni á Austfjörðum

Þjóðvegurinn í Hvalnesskriðum.
Þjóðvegurinn í Hvalnesskriðum. Mbl.is/Sigurður Bogi

Hætta er á grjóthruni í Hvalnes-, Þvottár- og Kambaskriðum á sunnanverðum Austfjörðum í kvöld, nótt og fram eftir degi á morgun og eru vegfarendur beðnir um að fara með ýtrustu varúð þar um. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Vegagerðinni. Stormur með mikilli rigningu gengur nú yfir á þessum slóðum. 

Þá er einnig tilefni til að fara varlega á vegum landsins, en hálkublettir eru víða um land.  

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er mjög víða á Suðurlandi. Flughált er á Rangárvallavegi, á Fljótshlíðarvegi og í Vestur-Landeyjum. 

Á Vesturlandi og Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum. Flughált er á Bjarnarfjarðarhálsi og þæfingur á Hálfdán og Mikladal.

Víða er greiðfært á Norðurlandi vestra en þó eru hálkublettir á nokkrum leiðum. Á Norðausturlandi er heldur meiri hálka. Ansi hvasst er orðið á Norðurlandi vestra.

Á Austurlandi er víða hálka eða hálkublettir. Hálkublettir eru með suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert