Styttri vinnuvika og engin launaskerðing

Kátir leikskólakrakkar.
Kátir leikskólakrakkar. Ómar Óskarsson

Leikskólar stúdenta; Mánagarður, Sólgarður og Leikgarður, sem reknir eru af og eru í eigu Félagsstofnun stúdenta (FS), munu stytta vinnuviku starfsmanna sinna sem nemur um fimm klukkustundum, niður í 35 tíma. Launaskerðing verður engin. Breytingarnar taka gildi 1. febrúar og verður endurskoðað 1. ágúst. 

„Við hjá leikskólum FS leitum stöðugt leiða til að efla ánægju og kjör okkar fólks,“ segir Sigríður Stephensen, leikskólafulltrúi og leikskólastjóri á Sólgarði, í tilkynningu. Eitt helsta markmið með styttingu vinnuvikunnar er að stuðla að auknu jafnvægi á milli atvinnu og einkalífs starfsfólks og þannig efla lífsgæði þess. 

Reynsla af tilraunaverkefnum um styttingu vinnuvikunnar frá bæði Noregi og Íslandi hefur verið jákvæð. Sú hugmyndafræði að stuðla að betra jafnvægi á milli starfs og fjölskyldulífs hefur skilað sér í meiri starfsánægju fólks, en ekki síst aukinni ánægju í fjölskyldulífi, segir jafnframt í tilkynningu. 

Á leik- og ungbarnaskólunum Mánagarði, Sólgarði og Leikgarði eru samtals 55 starfsmenn og rými fyrir 183 börn á aldrinum 6 mánaða til 5 ára. Vinna við stækkun á leikskólanum Mánagarði er nú í gangi og lýkur með vorinu. Að henni lokinni verður hægt að bjóða 128 börnum pláss, í stað 68 í dag.

mbl.is