Fjölbreytilega Flórída

Útsýnið yfir Atlantshafið af svölunum á Setai hótelinu á South …
Útsýnið yfir Atlantshafið af svölunum á Setai hótelinu á South Beach er fallegt. Það kom á óvart hversu hlýtt það var að svamla í öldurótinu við ströndina en í október er vatnið um 26-28° gráðu heitt. mbl.is/Hallur Már

Í október ferðaðist fimm manna fjölskylda frá Mosfellsbæ vestur til Flórída þar sem Miami,St. Petersburg og Orlando voru heimsóttar. Ríkið er margbreytilegt og borgirnar þrjár gjörólíkar. Ferðin var kærkomin framlenging á sumrinu.

Greinin birtist fyrst í Ferðahluta Sunnudagsblaðs Morgunblaðsins. 

Það er ekki lítið verkefni að fara með fimm manna fjölskyldu í 20 daga frí og því þarf skipulagningin að vera góð. Eins og flestir eyddum við hjónin því dágóðri stund í að skoða möguleikana þegar langþráð sumarfrí, þótt í október væri reyndar, var í kortunum.

Það kom okkur nokkuð á óvart að það væri hægt að gera betri kaup þegar kom að flugi og hótelum fyrir okkur með börn á aldrinum sex, sjö og 13 á Flórída en á Tenerife sem við vorum helst að skoða. Það helgast af því að Spánverjar gera eiginlega ekki ráð fyrir því að fimm manna fjölskyldur vilji vera saman í herbergi eða íbúð og stærðirnar bjóða einfaldlega ekki upp á það.

Háýsin í miðborg Miami eru mýmörg.
Háýsin í miðborg Miami eru mýmörg. mbl.is/Hallur Már

Þetta kom nú ekki að sök og það þurfti ekki að eyða mikilli orku í að sannfæra smáfólkið um að Flórída væri góður áfangastaður með öllum sínum skemmtigörðum og möguleikum í afþreyingu. Helst var það ég sjálfur sem þurfti að sannfæra en ég sá fljótlega möguleika á að komast þarna á NBA-leik sem lengi hafði verið á stefnuskránni og þá er Dali-safnið í St. Petersburg staður sem ég vissi að væri góður til að jafna út þennan risaskammt af afþreyingaráreiti sem Orlando er. Ekki síður var þetta tækifæri til að heimsækja nýja staði á Flórída.

Gjörólíkar borgir

Flogið var til Miami, borgar sem hefur lifað með manni frá því Sonny Crockett og Tubbs voru upp á sitt besta í Miami Vice. Það er ekki skrýtið að hún sé gjarnan sögusviðið í bíómyndum. Stærðin á öllu saman er það fyrsta sem grípur augað hjá Mosfellingnum en ekki síður sá mikli auður sem hefur safnast þarna saman enda er borgin miðstöð verslunar og flutninga. Þeim leiðist heldur ekki að sletta skyrinu þarna sem eiga það og bílarnir, snekkjurnar og tilkomumikil háhýsi setja sinn brag á kaupstaðinn.

South-Beach er ein alvinsælasta strandlengja heims. Shore-hótelið er frábærlega staðsett …
South-Beach er ein alvinsælasta strandlengja heims. Shore-hótelið er frábærlega staðsett þar en hótelin við ströndina hafa frátekið svæði þar sem hægt er að sækja sér þjónustu. mbl.is/Hallur Már

Fyrsta verk smáfólksins var að sjálfsögðu að hlaupa út í fagurblátt og ylvolgt Atlantshafið við South Beach. Engin eftirsjá að hafa farið til Flórída á þessum tímapunkti. Arkitektúr borgarinnar er einnig vel þekktur og fólk sem kann að meta módernískan arkitektúr ætti að kunna vel við sig þarna, svo ekki sé talað um áhugafólk um leturgerðir. Margt fyrir augað í Miami.

Frost-safnið í Miami er mörgu leyti vel heppnað og þar …
Frost-safnið í Miami er mörgu leyti vel heppnað og þar blandast saman fræðsla um vísindi og náttúru. mbl.is/Hallur Már

Eftir tvo góða daga var haldið í rúmlega fjögurra tíma akstur upp til St. Petersburg. Skilin þar á milli eru ansi skörp. Á meðan Scarface var staðsett í Miami var St. Petersburg sögusvið Marley and Me! Treasure Island Beach Resort var áfangastaðurinn og ber víst nafnið vegna fjársjóðs sem fannst á eyjunni skömmu eftir að landið var numið af Evrópubúum.

St. Petersburg er rólegur og fjölskylduvænn staður með einstakri strönd þar sem pelíkanar dýfðu sér í sjóinn í seilingarfjarlægð og höfrungatorfur léku sér skammt frá. Dali-safnið stóð fyrir sínu og það var mikil upplifun að vera í námunda við listaverk sem maður hefur oft virt fyrir sér í bókum. Bæði er það áferðin og smáatriðin sem skila sér ekki á myndum en safnið stendur sig líka vel í að miðla upplýsingum og sögunum í kringum verkin. Frábær staður sem óhætt er að mæla með.

Séð yfir ströndina í St. Petersburg sem snýr að lygnum …
Séð yfir ströndina í St. Petersburg sem snýr að lygnum Mexíkó-flóanum en hún þykir ein besta baðströndin í Bandaríkjunum. mbl.is/Hallur Már

 

Miðstöð afþreyingarinnar

Orlando var næst á dagskrá. Borgin byggðist upp í kringum afþreyingariðnaðinn á svæðinu og er í raun lítið fyrir augað en maður er svosem lítið að velta því fyrir sér á sundlaugarbakkanum eða í skemmtigörðunum. Úr varð að fara í Legoland, Universal og Disney World. Yngri börnin nutu sín best í Legolandi þar sem voru engar biðraðir og öll tækin á þeirra færi að fara í.

Universal-garðurinn og City Walk-kjarninn höfðaði mest til unglingsins og hefur meira að bjóða fyrir þá eldri. Disney hefur tekið við Star Wars-vörumerkinu sem setti svip sinn á Hollywood Studios-garðinn og höfðar að sjálfsögðu til nánast allra sem eru fæddir eftir 1970. Fyrirtækið er svo að þróa sérstakan Star Wars-garð sem verður opnaður 2019 og er beðið með mikilli eftirvæntingu. Fólk ætti ekki að vanmeta stærðina á þessum görðum, Disney World sérstaklega, en þar er hægt að skipuleggja sig fram í tímann með því að panta forgang í biðraðirnar alræmdu sem enginn vill eyða of miklum tíma í.

Það er fátt sem toppar það að sitja við hlið …
Það er fátt sem toppar það að sitja við hlið 6 ára barns í sinni fyrstu rússíbanaferð. Legoland garðurinn hentaði börnum á þessum aldri vel. mbl.is/Hallur Már

Þá er hægt að vera á hótelum við svæðið, sem er nokkuð þægilegt. Við vorum á Lake Buena Vista þaðan sem er örstutt í garðinn en hótelherbergin í Bandaríkjunum eru gjarnan rúmgóðar og vel búnar íbúðir. Afþreyingarfyrirtækin eru flest með eigin hótel sem eru misdýr en sum eru mjög vel heppnuð og á viðráðanlegu verði. Universal-hótelið Cabana Bay er gert í anda mótela sjöttu og sjöundu áratuganna þar sem hugsað er fyrir öllum smáatriðum, mjög skemmtilegt. Með skömmum fyrirvara þurftum við að breyta áætlunum okkar og pöntuðum fjögurra stjörnu hótel nafnlaust og samdægurs í gegnum vefinn hotwire.com þar sem er hægt að gera glettilega góð kaup.

NBA leikirnir eru góð fjölskylduskemmtun og þar kynnist maður skemmtilegri …
NBA leikirnir eru góð fjölskylduskemmtun og þar kynnist maður skemmtilegri hlið á bandarískum kúltur, engar bullur þar. mbl.is/Hallur Már

Gamall draumur rættist svo þegar við fórum á leik Orlando Magic og Miami Heat í Amway Center. Ég er af þeirri kynslóð sem lifði sig inn í NBA-æðið sem sem gekk yfir þegar Michael Jordan var upp á sitt besta. Seinna missti maður þráðinn og nennti ekki að vaka yfir útsendingum með alltof mörgum auglýsingahléum. Þess vegna kom það á óvart hversu hratt tíminn á leið á leiknum og maður tók lítið eftir leikhléunum enda eru Bandaríkjamenn fremstir allra þegar kemur að því að drepa tíma. Leikirnir eru mikil fjölskylduskemmtun en þar er einnig hægt að kaupa bjór og úrval af mat. Manni varð hugsað til þess hversu erfitt hefur reynst að breyta regluverkinu og menningunni í kringum íþróttaleiki á Íslandi.

Dalí-safnið í St. Petersburg er vel heppnað og geymir nokkur …
Dalí-safnið í St. Petersburg er vel heppnað og geymir nokkur lykilverka meistarans. Hér virða gestir fyrir sér: Lincoln in Dalivision. mbl.is/Hallur Már

 

Hringnum lokað

Eftir þétta dagskrá í Orlando var haldið að nýju niður til Miami, þaðan sem flogið var heim. Á leiðinni stoppuðum við í Palm Beach, í dýragarði borgarinnar sem hýsir dýr sem hefur verið bjargað úr haldi eða geta ekki bjargað sér í náttúrunni, sem var upplifun fyrir krakkana en ennþá var verið að tjasla garðinum eftir útreiðina sem hann fékk hjá fellibylnum Irmu.

Gamli arkitektúrinn á South-Beach á Miami er fallegur og víða …
Gamli arkitektúrinn á South-Beach á Miami er fallegur og víða er verið að gera upp byggingar sem voru reistar um miðja síðustu öld. mbl.is/Hallur Már

Matarmenningin í Bandaríkjunum er náttúrlega kafli út af fyrir sig en með því að versla í búðum á borð við Whole Foods og panta sjávarrétti á veitingastöðum er hægt að sneiða hjá því að borða yfir sig af skyndibitafæði. Í Miami fórum við á langbesta veitingastað ferðarinnar sem var Jaya á Setai-lúxushótelinu. Túnfiskurinn þar gleymist seint. Þá stóðumst við ekki mátið og fórum á annan NBA-leik en það var mun ódýrara að fara á leik þar en í Orlando.

Eftir afar viðburðaríkar vikur var svo haldið aftur til Íslands með nóg af D-vítamíni í kroppnum til að takast á við skammdegið sem beið heima.

Miami er ein stærsta borg Bandaríkjanna og er ekki lítið …
Miami er ein stærsta borg Bandaríkjanna og er ekki lítið að meðtaka fyrir sjö ára gamlan Mosfelling. mbl.is/Hallur Már


Á markaðnum í St. Petersburg þar sem hægt er að …
Á markaðnum í St. Petersburg þar sem hægt er að kaupa framleiðslu bænda og handverksfólks. mbl.is/Hallur Már
Núvitundin í Orlando náði hámarki í rússíbana í Universal-garðinum. Ég …
Núvitundin í Orlando náði hámarki í rússíbana í Universal-garðinum. Ég fullyrði að þar hugsar enginn um verðtrygginguna. mbl.is/Hallur Már
Þessi spaka önd var daglegur gestur í sundlaugagarðinum á Cabana-bay …
Þessi spaka önd var daglegur gestur í sundlaugagarðinum á Cabana-bay hótelinu þar sem útlit og hönnun eru í anda sjötta og sjöunda áratugarins. mbl.is/Hallur Már
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert