United Silicon ljúki öllum úrbótum

United Silicon hefur verið í greiðslustöðvun frá í ágúst.
United Silicon hefur verið í greiðslustöðvun frá í ágúst. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

United Silicon fær ekki heimild til að hefja framleiðslu á ný fyrr en lokið hefur verið við nær allar þær úrbætur sem tilteknar eru í mati norska ráðgjafafyrirtækisins Multiconsult sem rannsakað hefur tækjabúnað fyrirtækisins. Þetta kemur fram í úrskurði Umhverfisstofnunar, sem tilkynnt var um í dag.

Samkvæmt mati norska ráðgjafafyrirtækisins, sem birt var skömmu fyrir áramót, mun kosta um 25 milljónir evra (ríflega 3 milljarða króna) að lagfæra það sem út af stendur. Þó mætti leysa úr ýmsum málum fyrir einungis 5 milljónir evra. Vonir forsvarsmanna United Silicon höfðu staðið til þess að þær útbætur myndu nægja Umhverfisstofnun, en nú er ljóst að svo er ekki.

Í greinargerð Umhverfisstofnunar eru ýmsar úrbætur tilteknar. Hefja verður innleiðingu á umhverfisstjórnunarkerfi í verksmiðjunni í samræmi við kröfur, lagfæra þarf hráefnisgeymslur sem skemmst hafa í roki, koma fyrir árekstrarvörn við olíugeymi til slysavarna, girða af geymslur utandyra, koma upp lekavörnum fyrir olíutanka í samræði við gildandi reglugerð og fleira. 

Fyrirtækið Sameinað sílikon hf. sem á og rekur verksmiðjuna hefur verið í greiðslustöðvun frá í ágúst en framleiðsla hefur legið niðri frá í september. Á morgun rennur sú greiðslustöðvun út og því óvíst með framhaldið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert