Flugvél WOW air setti met

Flugvél WOW air, TF-SKY.
Flugvél WOW air, TF-SKY. Ljósmynd/WOW air

Flugvél WOW air, TF-SKY af tegundinni Airbus A321 NEO, flaug lengsta farþegaflug í sögu A321 NEO í gær þegar hún flaug frá Keflavík til Los Angeles.

Upplýsingar WOW air herma þetta og bíður félagið eftir því að fá metið staðfest.

Að sögn Svanhvítar Friðriksdóttur, upplýsingafulltrúa WOW air, var flugtíminn 8 klukkustundir og 43 mínútur og heildarflugleiðin 7.045 kílómetrar.

Airbus A321 NEO er sú háþróaðasta á markaðnum frá Airbus og hafa vélar af þessari tegund meira flugþol en þær A321-vélar sem hafa verið á markaðnum hingað til, að sögn Svanhvítar. WOW air fékk vélina afhenta fyrst evrópskra flugfélaga síðasta sumar.

TF-SKY er eina A321 NEO-vél WOW air en fyrir rekur flugfélagið eina A230 NEO-vél sem kallast TF-NEO.

Í vor mun ein A321 NEO-vél bætast í flota flugfélagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert