„Íslenskt heilbrigðiskerfi getur ekki beðið“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingmenn Miðflokksins, Flokks fólksins og Pírata lýstu yfir vilja til að skoða nýja staðsetningu Landspítala í sérstökum umræðum um staðsetningu þjóðarsjúkrahúss á Alþingi fyrir hádegi í dag. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra Vinstri grænna spurði hvort þeim þingmönnum sem vildu hætta við uppbyggingu Landspítala við Hringbraut væri alvara.

„Er fólki alvara með það að bjóða heilbrigðisstéttunum á Íslandi, heilbrigðisvísindum og veiku og slösuðu fólki upp á þann málflutning,“ sagði heilbrigðisráðherra og bætti við að það væri hættuleg hugmynd að stoppa uppbyggingu við Hringbraut á þessum tímapunkti.

„Íslenskt heilbrigðiskerfi getur ekki beðið,“ sagði Svandís.

Umræða þingmanna um efnið var nokkuð lífleg á köflum og sagði Inga Sæland formaður Flokks fólksins til dæmis að forsendur fyrir uppbyggingu við Hringbraut væru brostnar vegna umferðarmála í Reykjavík.

Ef hún, búsett í Grafarholti, veiktist að morgni tæki það hana 45 mínútur að komast á sjúkrahúsið við Hringbraut í þungri umferðinni. „Á kannski að fleygja mér í borgarlínuna af því að hún á að vera hraðleiðin niður á spítala fyrir mig?“ bætti Inga við.

Píratar vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um málið

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, sagði stefnu flokksins í málinu vera þá að fram ætti að fara faglegt mat á framtíðarstaðsetningu spítalans, þar sem engir kostir verði útilokaðir fyrir fram. Í kjölfar þessa mats fari fram þjóðaratkvæðagreiðsla eða „vönduð skoðanakönnun þar sem þjóðin fái að velja á milli þeirra kosta sem best koma út úr matinu“.

 „Við elskum það að deila,“ sagði Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokks. Hann sagði deilur um hús vera menningararf Íslendinga. Hann sagðist skilja þær efasemdir sem sumir hafa um staðsetningu háskólasjúkrahússins. Staðreyndin væri hins vegar sú að deilurnar mætti rekja til þess að við værum ekki búin að klára verkefnið fyrir löngu.

Landspítalinn við Hringbraut.
Landspítalinn við Hringbraut. mbl.is/Ómar Óskarsson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók undir með Óla Birni og sagði að löngu ætti að vera búið að ljúka byggingu sjúkrahússins. „Vandamálið er hins vegar núna að þegar við verðum búin að byggja þar, sem átti að vera löngu búið að klára, verður það jafnvel orðið úrelt stærðarlega séð,“ sagði Björn Leví.

Minnihluti þingheims vill skoða nýjan stað

Ekki virðist útlit fyrir að þær tillögur um nýja staðarvalsgreiningu fyrir Landspítala sem þingmenn stjórnarandstöðu hafa lagt fram með Sigmund Davíð Gunnlaugsson fremstan í flokki, hljóti brautargengi á Alþingi í bráð.

Þingmenn stjórnarflokkanna þriggja lýstu allir yfir vilja til að halda áfram með uppbygginguna við Hringbraut í takt við þingsályktun frá árinu 2014.

 „Við það eigum við að standa,“ sagði Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknarflokks, og þingmenn Samfylkingar og Viðreisnar voru á sama máli.

„Ég verð að segja að ég efast um að nokkur bygging sem yfir höfuð gegnir mikilvægu hlutverki í íslensku samfélagi myndi þola jafnítarlega skoðun og endurskoðanir á staðsetningu sinni og Landspítalinn við Hringbraut, nýbyggingin, hefur þolað undanfarin ár og áratugi. Það er þá kannski helst Hallgrímskirkja sem við gætum sammælst um að standi á góðum stað,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert