Siðareglur bæjarfulltrúa í brennidepli eftir boðsferð Samherja

Frá nafngift skipanna tveggja í Cuxhaven.
Frá nafngift skipanna tveggja í Cuxhaven. Ljósmynd/Samherji

Siðareglur kjörinna fulltrúa voru umræðuefni á fundi bæjarstjórnar Akureyrar í síðustu viku eftir að tveir bæjarfulltrúar þáðu boð Samherja um að vera viðstaddir athöfn í Cuxhaven í Þýskalandi er tveimur skipum voru gefin nöfn 12. janúar.

Sóley Björk Stefánsdóttir, bæjarfulltrúi VG, sem var málshefjandi, taldi fráleitt að þiggja slíkt boð en bæjarfulltrúarnir sem þáðu boðið töldu eðlilegt að fulltrúar frá Akureyrarkaupstað væru viðstaddir athöfnina.

Fulltrúar allra flokka sem eiga sæti í bæjarstjórn Akureyrar fengu í janúar boð frá Samherja og dótturfyrirtækinu Deutsche Fischfang Union um þriggja daga ferð til Bremen í Þýskalandi með beinu flugi frá Akureyri til að vera viðstödd nafngift tveggja nýrra togara í eigu félaganna.  

Gunnar Gíslason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, og Matthías Rögnvaldsson, bæjarfulltrúi Bæjarlistans og forseti bæjarstjórnar, þáðu boðið.

Fengu boðið í krafti stöðu sinnar

„Ég taldi það alveg fráleitt að þiggja slíkt boð og afþakkaði strax, en komst síðar að því að það voru ekki allir oddvitar á sömu skoðun og þáðu tveir þeirra boðið. Þetta boð fengum við aðeins í krafti stöðu okkar, þ.e. að við erum pólitískir fulltrúar og höfum völd í þessum bæ og völd sem þarf að beita,“ sagði Sóley á fundi bæjarstjórnar 24. janúar.

Sóley Björk Stefánsdóttir.
Sóley Björk Stefánsdóttir.

Hún bætti við að 8. grein siðareglna bæjarfulltrúa sé mjög opin fyrir túlkun. Hún hljómar svo: „Kjörnir fulltrúar þiggja ekki gjafir, fríðindi eða annan viðurgjörning frá íbúum og viðskiptavinum Akureyrarkaupstaðar eða þeim er leita eftir verkefnum eða þjónustu bæjarins, þannig að túlka megi sem persónulega þóknun fyrir ákvarðanir á vegum bæjarstjórnar eða nefnda.“

Sóley spurði í framhaldinu hvort svona boðsferð væri eitthvað sem bæjarfulltrúarnir ættu að þiggja frá einu stærsta fyrirtæki bæjarins. Það er hennar skoðun að þessi boðsferð rúmist hugsanlega innan siðareglna bæjarins en hún sagði enn fremur að „breyta þurfi þessu ákvæði þannig að það sé alveg skýrt að bæjarfulltrúar þiggi ekki gjafir, fríðindi eða annan viðurgjörning, jafnvel þó það sé ekki einhvers konar þóknun. Ástæðan er einföld, en hún hefur verið sett fram á mjög einfaldan hátt í gömlum málshætti sem heitir: „Æ sér gjöf til gjalda.“.“

Sjálfsagt að sýna virðingu í verki

Gunnar Gíslason sagði í umræðunum að það væri „alls ekki sama að þiggja boðsferð eða boðsferð, það fer allt eftir þeim tilgangi sem að boðsferðin býður í raun og veru upp á; hver er tilgangur hennar.“

Hann spurði einnig að því hvernig hagsmunir fyrirtækjanna færu ekki saman með hagsmunum bæjarins. „Við lítum svo á að okkur hafi því verið boðið sem fulltrúum Akureyrarbæjar,“ sagði Gísli og sagði að það væri sjálfsagt að sýna virðingu í verki.

„Það gerist aðeins á nokkurra áratuga fresti að vígðir eru nýir togarar í þeim stærðarflokki sem þarna um ræðir, á vegum íslenskra fyrirtækja eða fyrirtækja tengdum einhverjum íslenskum aðilum,“ benti Gísli á. 

Gunnar Gíslason.
Gunnar Gíslason.

Hann sagði enn fremur, að það hefði verið mjög sérstakt ef enginn fulltrúi frá bænum hefði þekkst boðið á athöfnina í Þýskalandi. Um væri að ræða verkefni sem skipti Akureyrarbæ, íbúana og önnur fyrirtækinu í bænum miklu máli. Hann tók enn fremur fram, að bæjarfulltrúarnir tveir hefðu engra persónulegra hagsmuna að gæta af þessu. 

„Það að fella þetta undir áttundu greinina getur aldrei farið saman, vegna þess að þarna er verið að fagna hlutum sem eru löngu gerðir og hafa ekkert með ákvarðanir Akureyrarbæjar að gera eða bæjarfulltrúa Akureyrar. Enda er það mat lögfræðings að þetta falli alls ekki undir þetta og geti ekki gert það,“ sagði Gunnar og bætti við að hann væri reiðubúinn í umræður um hvernig skerpa mætti á siðareglunum. 

Matthías Rögnvaldsson, forseti bæjarstjórnar, sagðist skilja umræðuna þannig að allir væru sammála um að engin lög eða reglur hefðu verið brotnar. Allir væru sammála því að þetta hefði verið gott og jákvætt mál, en spurning snerist um það hvort það væri eðlilegt að bæjarfulltrúar færu í umrædda ferð.  

„Mér fannst fullkomlega eðlilegt að það færi einn fulltrúi frá meirihlutanum og einn frá minnihlutanum, þó svo það hafi ekki verið stillt þannig upp. Ég er líka sammála því að hefði verið betra ef það hefði verið einhver umræða um þetta,“ sagði Matthías.

Slæmt að vera sakaður um óheiðarleika

„Ég er sammála því að við eigum að ræða siðareglurnar og fara yfir þetta, og velta fyrir okkur hvort það séu einhverjir árekstrar eða hvort þetta sé eitthvað sem við mættum standa betur að,“ sagði Matthías og bætti við að hann væri stoltur af því að hafa farið í umrædda ferð. Það hefði verið frábært að geta fagnað áfanganum með fyrirtækinu. 

Matthías Rögnvaldsson.
Matthías Rögnvaldsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Hann bætti við að bæjarstjórinn og bæjarlögmaðurinn hefðu verið á þeirri skoðun að það hefði verið eðlilegt að tveir fulltrúar frá bænum hefði farið í þessa ferð.

„Mér finnst alltaf voðalega slæmt ef einhver finnst ég vera óheiðarlegur eða eitthvað. Ég hef lagt mig fram við það að vera heiðarlegur og hef alltaf hagað mér þannig, í bæjarstjórn sem annars staðar,“ sagði hann og bætti við að hann væri ekki að lesa það út úr umræðunni að það væri verið að ræða um að þeir hefðu þegið mútur. „Af því að umræðan verður þannig [...] oft og tíðum er fólki alveg sama um sannleikann.“

Umræðan vakti fleiri spurningar en svör

Sóley sagði að umræðan hefði vakið fleiri spurningar heldur en svör. Stærsta spurningin sé hvar línan liggi. Hún spurði hvort það hefði verið betra að spyrja siðfræðing að þessu, þ.e. hvort þetta hefði verið eðlilegt, í stað þess að spyrja bæjarstjórann og bæjarlögfræðinginn. 

Gunnar segir að þetta hafi snúist um virðingu gagnvart fyrirtækjunum, starfsmönnum þess og íbúum. „Við þurfum að vera í tengslum við samfélagið.“

Hann bætti hins vegar við, að það hefði verið betra ef bæjarfulltrúarnir hefðu getað fundað um boðið sjálft og tekið afstöðu til þess.

„Það breytir samt ekki stóru myndinni fyrir mér. Þetta snýst um að við sýnum hér ákveðna hluttekningu í þessu samfélagi í tengslum við það hvernig við viljum sjá þetta samfélag þróast, við setjum okkur inn í hlutina og berum virðingu fyrir því sem þar er gert. Það er grundvallaratriði í mínum huga,“ sagði Gunnar og bætti við að það sé mikilvægt að menn taki afstöðu til þess hvað sé gjöf og hvað sé ekki gjöf. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert