Forsetinn vitnaði í Línu Langsokk

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

Vonir standa til að við séum á tímamótum. Hingað og ekki lengra heyrist um allan heim,“ sagði Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á ráðstefnu um áhrif #metoo á fyrirtækjamenningu sem fer fram á Grand hóteli í dag.

Hann sagði að við yrðum að hlusta og gera betur. „Hvarvetna heyrast sömu raddir; hingað og ekki lengra, yfirgangur verður ekki lengur liðinn,“ sagði Guðni og vitnaði í ljóð eftir Elísabetu Jökulsdóttur:

„Það eru alls konar venjulegir menn, jafnvel vinir mínir, að kvarta undan þessari metoo-bylgju sem er í gangi, þeir segja „ekkert má maður“ og „hvað má eiginlega“ og „ekkert má maður lengur“. Við þá vil ég segja: Það má ekkert, maður biður um leyfi fyrir öllu; má ég sýna þér hvað ég var að skrifa, má ég fá tannkremið, má ég fá mjólkina, má ég knúsa þig, má ég fá lánaða húfuna þína ...“

Guðni bætti við að nei þýddi nei. Hann sagði að við ættum að hafna hinum freku og þeim sem vildu komast upp með hvað sem er.

„„Hann er sterkasti maður í heimi,“ sagði Anna. „Maður,“ sagði Lína. „En ég er sterkasta stelpa í heimi,“ og freki kallinn átti ekkert í Línu,“ sagði Guðni og benti á hversu góð fyrirmynd Lína Langsokkur væri.

Guðni sagði dæmin sem hann tók eiga við um umræðuefni fundarins í dag. „Dæmin sýna að konur hafa þurft að þola ofbeldi og ofríki árum saman,“ sagði Guðni. 

Nú þyrfti að halda áfram að tala um margþætt mein og passa að ná raunverulegum breytingum. „Nýtið tækifærið til að bæta vinnustaðamenninguna fyrir alla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert