Hefja rannsókn á áformaðri gjaldtöku Isavia

Isavia ætlar að hefja gjaldtöku á hópferðabíla á fjarstæðum 1. …
Isavia ætlar að hefja gjaldtöku á hópferðabíla á fjarstæðum 1. mars. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Samkeppniseftirlitið hefur tilkynnt Isavia að rannsókn sé hafin á gjaldtöku af hópferðabílum við flugstöðina á Keflavíkurflugvelli. Upphaf málsins má rekja til þess að Gray Line kærði áform Isavia í janúar og hefur nú fengið svar frá eftirlitinu um að frummat þess sýni að fyrirhuguð gjaldtaka muni að óbreyttu leiða til mikillar verðhækkunar á farþegaflutningum til og frá Keflavíkurflugvelli.

Isavia tilkynnti 1. Desember að félagið ætlaði að hefja gjaldtöku af hópferðabílum sem sækja farþega á svokölluð fjarstæði við flugstöðina. Gjaldið á að vera 7.900 kr. fyrir minni bíla og 19.900 kr. fyrir stærri bíla.

Gray Line benti í kæru sinni á að margrar alþjóðlegar flugstöðvar í nágrannalöndunum væri ýmist ekkert gjald tekið af þessum hagkvæma og umhverfisvæna ferðamáta, eða miklu lægra en Isavia áformaði.

Vegna þessa hafi Samkeppniseftirlitið ákveðið að taka kæru Gray Line til meðferðar og hefja rannsókn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gray Line.

Gray Line kærði ákvörðun Isavia.
Gray Line kærði ákvörðun Isavia.

Samkeppniseftirlitið segir í bréfinu að háttsemi Isavia komi til skoðunar samkvæmt 11. grein samkeppnislaga, sem felur í sér bann við markaðsráðandi stöðu, svo og eftir atvikum 54. grein EES-samningsins.

Fær Isavia fram til 16. febrúar að skýra sjónarmið sín og skila upplýsingum um gjaldtökuáform.

Samkvæmt upplýsingum frá Isavia á gjaldtakan að hefjast 1. mars. Er spurt í bréfi eftirlitsins hvort komi til álita af hálfu Isavia að fresta gjaldtökunni, en Samkeppniseftirlitið hefur heimild til að taka ákvarðanir til bráðabirgða ef sennilegt þykir að viðkomandi háttsemi fari gegn ákvæðum samkeppnislaga eða raski samkeppni.

mbl.is