Þriðjungur þekkti hættumerkingar

Konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á …
Konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á vörum sem bera hættumerkingar og eru ólíklegri til að kaupa slíkar vörur. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Í nýlegri könnun Umhverfisstofnunar kom í ljós að 32% aðspurðra þekktu hættumerki á neytendavörum en um 45% töldu að úreldar, eldri merkingar væru þær réttu.

Einnig kom í ljós að konur fara frekar en karlar eftir leiðbeiningum um notkun á vörum sem bera hættumerkingar og eru ólíklegri til að kaupa slíkar vörur.

Alþjóðlegar reglur um merkingar á hættulegum efnavörum hafa alfarið tekið gildi hér á landi en þær eiga við um ýmsar algengar neytendavörur s.s. hreinsiefni, stíflueyða, grillvökva, duft fyrir uppþvottavélar og fleira, að því er segir í tilkynningu á vef Umhverfisstofnunar.

Umhverfisstofnun lét gera könnun á stöðu þekkingar meðal almennings á þessu sviði árið 2015 og var hún endurtekin nú.

Þrjár spurningar sem tengjast hættumerktum efnavörum, þær sömu og 2015, voru lagðar fyrir í Þjóðargátt Maskínu í nóvember síðastliðnum og bárust svör frá 830 manns.

Fyrst var spurt hvort fólk þekkti hættumerkin sem notuð eru til þess að gefa til kynna hættueiginleika efnavara og þar kom í ljós að 32% aðspurðra þekktu merkin sem ber að nota samkvæmt núverandi löggjöf samanborið við 9% í könnuninni 2015.

Í fyrri könnun bentu 91% svarenda á eldri merki sem hafa verið notuð um árabil en heyra nú sögunni til, en nú er það hlutfall komið niður í 45%. Það er því ljóst að þekking almennings hvað þetta varðar hefur aukist á tímabilinu, þó vissulega megi gera betur, segir í tilkynningunni.

Þegar spurt var hvort fólk væri líklegra eða ólíklegra til að kaupa efnavöru ef hún bæri hættumerkingar taldi 41% sig vera miklu eða nokkru ólíklegri til þess nú. Hlutfallið var 48% í síðustu könnun. Karlar sögðust líklegri til að kaupa hættumerktar vörur en konur.

Loks var spurt hvort fólk færi eftir notkunarleiðbeiningum sem tilgreindar eru á umbúðum hættumerktra efnavara og 19% svarenda sagðist stundum gera það, en 70% oftast eða alltaf, sem gerir samtals 89%.

Sambærileg hlutföll voru 13% og 81% í fyrri könnun eða samtals 94% og því virðist að þeim hafi fækkað sem lesa leiðbeiningar fyrir þessar vörur. Konur fara oftar eftir notkunarleiðbeiningum en karlar hafa þó dregið á þær hvað þetta varðar frá síðustu könnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert