Vara við „veðurhvelli“

Svona er vindaspáin á landinu klukkan 10 í fyrramálið. Mestur …
Svona er vindaspáin á landinu klukkan 10 í fyrramálið. Mestur verður vindurinn á þeim svæðum sem lituð eru bleik, rauð og gul. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Vegagerðin vekur athygli á „veðurhvelli“ sem spáð er að gangi hratt yfir landið í fyrramálið. Suðvestanlands á milli klukkan 7 og 10 er spáð allt að 23-28 m/s og snjókomu og slæmu skyggni í efri byggðum og austur frá Reykjavík. Hviður verða allt að 40 m/s á Reykjanesbraut um klukkan 8 og fram yfir klukkan 10 á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.

Þetta kemur fram í viðvörunarorðum veðurfræðings Vegagerðarinnar.

Veðurspá næsta sólarhrings er þessi: Suðvestlæg átt, víða 8-15 m/s og él, en léttskýjað norðaustantil. Hiti verður nálægt frostmarki, en svo kólnar í kvöld.  Ört vaxandi suðaustanátt í nótt og hlýna og er von á 20-30 m/s í fyrramálið. Hvassast verður um landið vestanvert. Von er á snjókomu í fyrstu, en síðan slyddu og rigningu og verður hún mikil um landið suðaustanvert. Úrkomulítið verður hins vegar norðaustantil. Dregur ört úr vindi og úrkomu upp úr hádegi, en áfram stormur austanlands fram á kvöld og mikil rigning suðaustantil. Hiti verður víða 2 til 7 stig.

Færð og aðstæður á vegum voru þessar um klukkan 11 í morgun:

 Á Suður- og Suðvesturlandi er víðast hvar hálka, hálkublettir og éljagangur. Snjóþekja og éljagangur er á Hellisheiði og Lyngdalsheiði.

Á Vesturlandi er sömu sögu að segja, þar er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og sumstaðar éljagangur.

Hálka, hálkublettir og éljagangur er á flestum vegum á Vestfjörðum en snjóþekja er á Kleifaheiði, Þröskuldum og Steingrímsfjarðarheiði. Þæfingsfærð er á Hálfdán en flughált er á Örlygshafnarvegi og yfir Bjarnarfjarðarháls. 

Á Norðurlandi er víða éljagangur en fremur lítið um hálku nema í Húnavatnssýslum. Snjóþekja er á Öxnadalsheiði.

Það er víða hált eða hálkublettir á Austurlandi. Með suðausturströndinni er hringvegurinn auður suður að Lómagnúp en hálka og hálkublettir þar vestar.

Veðurvefur mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert