Varð Danmerkurmeistari eftir eitt ár

Karítas Hvönn Baldursdóttir er Danmerkurmeistari í sínum þyngarflokki í muay …
Karítas Hvönn Baldursdóttir er Danmerkurmeistari í sínum þyngarflokki í muay thai. Ljósmynd/Danijel Bogdanic

Karítas Hvönn Baldursdóttir, 25 gömul kona frá Egilsstöðum, varð á dögunum Danmerkurmeistari í sínum þyngdarflokki í muay thai. Hún hefur einungis æft íþróttina í rúmt ár. 

Karítas flutti til Kaupmannahafnar haustið 2015 til þess að hefja háskólanám. Hún stundar þar nám í alþjóðlegri næringar- og heilsufræði (e. global nutrition and health). Hún er fædd og uppalin á Egilsstöðum og þar í kring.

Hafði alltaf langað að prófa

Karítas byrjaði að æfa muay thai fyrir rúmu ári.
Karítas byrjaði að æfa muay thai fyrir rúmu ári. Ljósmynd/Danijel Bogdanic

Hún byrjaði að æfa muay thai fyrir rétt rúmu ári og er þegar orðin Danmerkurmeistari í sínum þyngdarflokki og hefur unnið sér inn þátttökurétt á Evrópumótinu í Prag sem fer fram í sumar.

„Það var eiginlega ekki aftur snúið eftir að ég fór og prófaði,“ segir Karítas og hlær en nokkuð ljóst er að íþróttin á vel við hana.

„Mig hefur alltaf langað til þess að prófa bardagaíþróttir en það er ekki eitthvað sem var í boði heima á Egilsstöðum. Ég ætlaði bara að fara og prufa og það var ekkert endilega hugmyndin að ég mynd fara að keppa, og hvað þá á meistaramótinu hérna í Danmörku,“ segir hún.

Einungis þriðji bardaginn

Það má segja að hlutirnir hafi gerst mjög hratt en ferlið hefur engu að síður verið mjög skemmtilegt. Karítas byrjaði ekki alveg á fullu í muay thai, heldur tók hún einn og einn tíma. „Svo fór þjálfarinn þar að minnast reglulega á möguleikann á því að fá bardaga, þá ákvað ég að setja fókusinn meira þangað.“

Meistaramótið í Danmörku fór fram 24. febrúar og segir Karítas það ánægjuefni að í ár hafi þátttaka kvenna aukist mjög frá því í fyrra. En bjóst hún við því að sigra sinn flokk?

„Þjálfarinn minn hafði rosalega mikla trú á mér. Mér fannst ég tilbúin í þetta, hausinn var í góðu standi og það voru þrjár aðrar stelpur úr ræktinni minni að keppa þannig það var rosalega góður andi þennan dag og ég fór bara með það hugarfar að ég ætlaði að gera mitt allra besta,“ segir Karítas af hógværð. Þetta var einungis þriðji bardaginn hennar og er hún enn ný í íþróttinni.

Stefnir á Evrópumótið

Stefnan er tekin á Evrópumeistaramótið í Prag í sumar.
Stefnan er tekin á Evrópumeistaramótið í Prag í sumar. Ljósmynd/Danijel Bogdanic

Hvernig gengur að sinna bæði náminu og æfingum? Er það ekkert strembið?

„Það er mjög mikið að gera hjá mér, þetta er þétt dagskrá. En mér tekst að láta þetta smella saman. Ég æfi oftast a.m.k. einu sinni á dag, einu sinni til tvisvar, þá get ég oft valið um morgunæfingu eða seinnipartsæfingu. Ef mann langar að láta þetta ganga upp, þá nær maður að púsla þessu saman,“ segir hún ákveðin.

Með sigrinum vann Karítas sér inn keppnisrétt í Evrópumótinu sem fer fram í sumar. „Ég á eftir að eiga samtal við þjálfarann minn en ég hugsa að stefnan verði sett á það. Svo í millitíðinni get ég vonandi tekið aðeins fleiri bardaga því ég er enn þá svo ný í þessu sporti og það er rosalega gott að ná sér í meiri reynslu. Ég finn rosalega mikinn mun í hvert sinn sem ég keppi.“

Karítas á að útskrifast í janúar 2019. Ætlar hún þá að snúa aftur heim? „Ég held það fari svolítið eftir því hvert þessi íþrótt tekur mig. Ég er alla vega rosalega ánægð hérna núna en ég útiloka ekki möguleikann á að flytja aftur heim á einhverjum tímapunkti.“

Ljósmynd/Danijel Bogdanic
Ljósmynd/Danijel Bogdanic



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert