Rými fyrir ólíkar skoðanir í þingflokknum

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það eru, eins og allir vita, oft ólíkar skoðanir innan Vinstri grænna og okkar stjórnmálamenning er bara þannig að þessar skoðanir eru viðraðar opinberlega og ekki faldar undir yfirborðinu. Ég hef verið á þingi í tíu ár og starfað enn lengur með hreyfingunni og hef nú ekki endilega miklar áhyggjur af því þó það séu ekki allir sammála innan þingflokksins.“

Þetta segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í samtali við mbl.is vegna frétta af því að ákveðin spenna sé innan þingflokks Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs í kjölfar atkvæðagreiðslunnar á Alþingi um vantrauststillögu á hendur dómsmálaráðherra þar sem tveir þingmenn flokksins, þau Andrés Ingi Jónsson og Rósa Björk Brynjólfsdóttir, greiddu atkvæði með tillögunni. Hefðbundinn þingflokksfundur verður haldinn á mánudaginn.

„Vitanlega er það alltaf krefjandi að vera í stórum verkefnum eins og ríkisstjórnarþátttöku og þá reynir á en ég hef alla trú á því að við leysum bara úr þessu eins og öllu öðru. Eins og ég segi þá er menning stjórnmálaflokka einfaldlega mismunandi að þesu leyti. Það er rými fyrir ólíkar skoðanir og við vinnum bara út frá því. Þetta er bara ákveðið verkefni.“

Katrín mun funda með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, á mánudaginn. Þær munu báðar sitja ráðstefnu um jafnréttismál í sendiráðsbyggingu Norðurlandanna en einnig eiga tvíhliða fund. „Við munum fara yfir ýmis mál af því tilefni. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt að eiga góð samskipti við þessa vinaþjóð okkar. Það var þannig mjög ánægjulegt að hægt hafi verið að koma á þessum fundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert