Var til vandræða við Kringluna

mbl.is/Hjörtur

Lögreglu barst tilkynning um ofurölvi mann sem var til vandræða við Kringluna laust fyrir klukkan hálf tvö í nótt. Maðurinn var handtekinn en þegar lögregluþjónar reyndu að aka manninum heim neitaði hann að yfirgefa lögreglubifreið.

Maðurinn var því vistaður í fangageymslu lögreglu á meðan ástand hans skánar. Frekar rólegt var hjá lögreglu í nótt sem þurfti þó að hafa einhver afskipti af ökumönnum sem voru ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna.

Lögregla hafði afskipti af ölvuðum ungum manni í Hafnarstræti rétt fyrir klukkan eitt í nótt. Ekki náðist að aðstoða manninn heim og þurfti hann að gista í fangageymslu lögreglu meðan ástand hans batnar.

Þá barst tilkynning um eignaspjöll í Fjölskyldugarðinum á öðrum tímanum í nótt en þá var búið að brjóta rúður í vinnuvélum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert