Köttur setti öryggiskerfið af stað

Kötturinn forvitni náðist á öryggismyndavélar á rölti sínu um húsið.
Kötturinn forvitni náðist á öryggismyndavélar á rölti sínu um húsið.

Starfsfólk Landhelgisgæslunnar í Keflavík rauk upp til handa og fóta fyrir skemmstu þegar tilkynning um óboðinn gest barst frá öryggiskerfum í húsnæðinu. Leitaði starfsfólk af sér allan grun en enginn sekur fannst á svæðinu.

Stuttu síðar náðist hinn seki hins vegar á upptöku öryggismyndavélar og var hann aðeins loðnari og minni en búist hafði verið við. Um var að ræða kött sem hafði tekist að fela sig vandlega á meðan leit stóð yfir, en skellti sér á stjá þegar enginn sá til, eða svo hélt hann.

Landhelgisgæslan greinir frá heimsókn kattarins á Facebook-síðu sinni. „Þessu krútti var komið í öruggar hendur eigenda sinna eftir ofurspennandi ævintýraferð um svæði Landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli,“ segir í færslunni.



 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert