Fíklum með lifrarbólgu C fækkar mikið

Árangurinn af verkefninu endurspeglast meðal annars í mikilli fækkun sjúklinga …
Árangurinn af verkefninu endurspeglast meðal annars í mikilli fækkun sjúklinga með lifrarbólgusmit, sem koma inn á Vog. mbl.is/Ómar Óskarsson

Dregið hefur snarlega úr virkri lifrarbólgu meðal sprautufíkla sem komið hafa inn á Vog síðustu tvö árin, eftir að farið var af stað í átaksverkefni með það að markmiði að útrýma lifrarbólgu C hér á landi. Árangurinn af íslenska lifrarbólgu C verkefninu (Trap HepC) hefur vakið heimsathygli í alþjóða fræðasamfélaginu, en á fyrstu 15 mánuðum verkefnisins dróst tíðni sjúkdómsins meðal sprautufíkla á Vogi saman um 72 prósent, eða úr 43 prósentum niður í 12 prósent.

Einnig má sjá verulega fækkun á nýju smiti, eða nýgengi, meðal einstaklinga á Vogi, eða 53% lækkun milli áranna 2015 og 2017, þrátt fyrir að fjöldi nýrra einstaklinga í hópi þeirra sem sprauta sig sé meiri.

Íslenska lifrarbólgu C verkefnið er átaksverkefni sem formlega var hrint af stað í janúar árið 2016, en ábyrgðarmaður þess er Sigurður Ólafsson, meltingarsérfræðingur á Landspítalanum. Að verkefninu standa Landspítalinn, embætti landlæknis og Sjúkrahúsið Vogur.

Á fyrstu 15 mánuðum verkefnisins voru 554 einstaklingar greindir með með lifrarbólgu C og í kjölfarið hófu 518 þeirra lyfjameðferð. 473 hafa nú lokið meðferð, en 96 prósent þeirra báru ekki lengur veiruna eftir 12 vikna lyfjameðferð og teljast því læknaðir af lifrarbólgu C. Flestir þessara einstaklinga voru meðhöndlaðir á Landspítalanum, en 30 prósent sjúklinga fengu meðhöndlun á Vogi. Árangurinn af verkefninu endurspeglast meðal annars í mikilli fækkun sjúklinga með lifrarbólgusmit, sem koma inn á Vog.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, greindi frá fyrstu niðurstöðum verkefnisins á alþjóðlegri fagráðstefnu um lifrarsjúkdóma í París um helgina (The International Liver Congress). Valgerður segir í samtali við mbl.is að mjög fljótlega verði greint frá nánari niðurstöðum verkefnisins, en nú þegar hefur verið fjallað um helstu niðurstöður í erlendum fjölmiðlum. „Þetta eru ánægjulegar niðurstöður sem er komnar í fréttirnar.“

Tekist hefur að ná meðferðarsambandi við alla þá sem greinst hafa með lifrarbólgu C hér á landi síðustu rúmlega tvo áratugi, en SÁÁ hefur skimað eftir veirunni í sprautusjúklingahópi SÁÁ og haldið nákvæma skráningu um sjúklingahópinn frá 1995. Góðan árangur má einna helst rekja til þess hve íslenska þjóðin er fámenn og hve góða heilbrigðisþjónustu fólk með fíknisjúkdóma fær. Það auðveldar allt utanumhald og skráningu.

Vísindateymi meðferðarátaks gegn lifrarbólgu C hefur nýverið birt tvær greinar í virtum vísindatímaritum þar sem fram kemur að Ísland hefur góða möguleika til að verða fyrst til að ná markmiðum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) um 80% lækkun nýgengis lifrarbólgu C fyrir 2030. Í greininni kemur fram að gangi átakið áfram að óskum gæti Ísland náð að útrýma lifrarbólgu C sem meiri háttar heilbrigðisvá allt að 10 árum fyrr en áætlað var.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert