Björgólfur sýknaður af 600 milljóna bótakröfu

Björgólfur Thor Björgólfsson.
Björgólfur Thor Björgólfsson. mbl.is/Ásdís

Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Björgólf Thor Björgólfsson kaupsýslumann af kröfum um 600 milljóna króna skaðabætur vegna gjaldþrots Landsbankans. Vogun hf. krafðist 366 milljóna króna og Fiskveiðihlutafélagið Venus hf. 238 milljóna króna í bætur.

Kristján Loftsson, framkvæmdastjóri Hvals hf., er í forsvari fyrir bæði félögin, sem kröfðust bæði bóta á þeim grundvelli að Samson eignarhaldsfélag hefði verið meirihlutaeigandi að Landsbankanum fyrir hrun. Því hefði félaginu borðið að bjóðast til að kaupa aðra hluthafa út úr bankanum.

Vogun keypti tvívegis hlutabréf í Landsbankanum, fyrst 16. febrúar 2006 og síðar 19. desember 2007. Fiskveiðifélagið Venus keypti hlutabréf í bankanum 12. desember 2007. Hlutabréfin urðu verðlaus við hrun bankakerfisins í október 2008.

Björgólfur Thor var sýknaður af bótakröfu fyrirtækjanna þar sem málið þykir fyrnt. Í dómnum segir að upphaf fyrningarfrests sé 7. október 2008, við bankahrunið.

Hér og hér má lesa dómana.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert