Hugmynd að skipulagi hafnað

Miðbakkinn. Húsin sjö sem hugmyndin gekk út á eru fremst …
Miðbakkinn. Húsin sjö sem hugmyndin gekk út á eru fremst á hafnarbakkanum. Þau áttu taka mið af byggingarstíl húsa sem fyrir eru við höfnina. Tölvumynd/PKdM

Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur tekið neikvætt í tillögu um uppbyggingu á Miðbakka við Gömlu höfnina í Reykjavík. Miðbakki er í hjarta hafnarinnar, fyrir framan Hafnarhúsið og Hafnarhvol.

Það voru PKdM Arkitektar ehf. sem lögðu fram fyrirspurnina fyrir hönd Geirsgötu 11 ehf. sem er félag í eigu Guðmundar Kristjánssonar, forstjóra Brims hf. Það félag á samnefnda húseign, Geirsgötu 11, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

„Það er mat skipulagsfulltrúa að þó svo að götusýn við Geirsgötu geti vel tekið á sig breytta mynd með frekari uppbyggingu við götuna þá sé hér verið að sýna of mikið byggingarmagn,“ segir í umsögn skipulagsfulltrúa Reykjavíkur um fyrirspurnina.

Húsið á Geirsgötu 11 var byggt árið 1982. Þar voru fyrst vörugeymslur Ríkisskipa, en síðar var þar fiskvinnsla Jóns Ásbjörnssonar hf. og Fiskkaupa hf. sem seldu Brimi hf. húsið. Það hefur staðið að mestu autt undanfarið og var farið að láta á sjá. Húsið var málað fyrir fáeinum árum.

„Markmiðið er að Miðbakki verði að öflugu sjálfbæru borgarumhverfi og vinsæll fjölsóttur áfangastaður í miðborginni þar sem fjölbreytt starfsemi þrífst með vönduðu manngerðu umhverfi í góðri tengingu við höfnina og náttúruna og skapi sér þar með sérstöðu sem spennandi staður, fullur af iðandi mannlífi og nýjum tækifærum,“ segir m.a. í hugmyndum PKdM að nýju deiliskipulagi fyrir Miðbakkann. Þarna verði fjölbreytt hefðbundin hafnarstarfsemi með áherslu á þjónustu við skemmtiferðaskip, fiskiskip og báta, menningarstarfsemi og ferðaþjónustu. Verslun og þjónusta og hótel og veitingastaðir séu heimil á þessu svæði.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert