Leigufélögin eru orðin ráðandi í verði

Jaðarleiti. Nýbyggingar við RÚV
Jaðarleiti. Nýbyggingar við RÚV mbl.is/RAX

Vísbendingar eru um að stór leigufélög séu orðin ráðandi í leiguverði íbúða á höfuðborgarsvæðinu. Ásgeir Jónsson, forseti hagfræðideildar Háskóla Íslands, rifjar upp að leigumarkaðurinn hafi stækkað mikið í kjölfar hrunsins. Sú breyting sé á vissan hátt varanleg. Fasteignaverð hafi hækkað mikið í fyrra.

„Um leið og það fer að tregðast með sölu, og fólk er ekki tilbúið að kaupa á núverandi verði, mun leigumarkaðurinn sækja aftur í sig verðið. Verðið á mörgum íbúðum sem eru að koma á markaðinn er alltof hátt fyrir fyrstu kaupendur. Það skapar misvægi á markaðnum. Skortur á framboði, strangari kröfur um eigið fé og verðhækkanir á húsnæði gætu farið að þrýsta upp leiguverði þegar kemur fram á veturinn.“

Í fréttaskýringu um leiguverðsmálin í Morgunblaðinu í dag bendir Ásgeir á að fyrr eða síðar muni fasteignaverðið ná toppi. Margir leigjendur muni telja að um sinn sé skynsamlegra að leigja. Þá bendir Ásgeir á að ef fyrstu kaupendur komast ekki á markaðinn muni markaðurinn fyrr en síðar „koðna niður“. Fyrstu kaupendur séu nauðsynlegur hluti hringrásar.

„Til lengri tíma litið mun séreignastefnan koma til baka. Framboðsskorturinn mun ekki vara endalaust og Íslendingar vilja búa í eigin húsnæði. Næstu tvö ár verður þó áfram skortur á íbúðum,“ segir Ásgeir sem telur að lækkun langtímavaxta árin eftir hrun hafi skapað forsendur fyrir starfsemi leigufélaga. Áður hafi „fórnarkostnaður fjármagns“ verið of hár til að það borgaði sig að leigja út. Vextir og leiga séu tvær hliðar á sama peningi.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert