Fjögurra ára fangelsi fyrir nauðgun

mbl.is/Ófeigur

Karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir að nauðga þáverandi unnustu sinni á hrottafenginn hátt á heimili þeirra í desember 2016. Hann var einnig sakaður um frelsissviptingu en ekki þótti sannað að hann hefði gerst sekur í þeim efnum og var hann því sýknaður af því.

Aðalmeðferð í málinu fór fram í Héraðsdómi Reykjaness í lok mars en þinghaldið var lokað. Dómur var kveðinn upp í málinu á föstudag.  

Karlmaðurinn neitaði sök og konan dró kæru sína til baka en lögreglan hélt rannsókn sinni áfram og fékk meðal annars heimild til að hlera síma konunnar.

Konan gaf þá skýringu á að hafa dregið kæruna til baka tveimur dögum eftir að hún leitaði til neyðarmóttöku Landspítala þar sem það væri „best fyrir hana og hennar fjölskyldu.“

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ósennilegt er að konan hafi samþykkt kynmök sem hafi skilið hana eftir með þá áverka sem sannað er að hún var með við skoðun á neyðarmóttöku. Í dómnum kemur einnig fram að maðurinn hafi ógnað heilsu konunnar á alvarlegan hátt og svipt hafa frelsi í rúma fimm klukkutíma og þvingað hana til samræðis víðs vegar um húsið og beitt hana ofbeldi og ólögmætri nauðung.

Maðurinn var dæmdur í fjögurra ára fangelsi en 11 daga gæsluvarðhald sem hann sætti vegna málsins dregst frá refsingunni.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert