Stefán Hilmarsson bæjarlistamaður

Stefán Hilmarsson.
Stefán Hilmarsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Stefán Hilmarsson tónlistarmaður var útnefndur bæjarlistamaður Kópavogs 2018 við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni í dag. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Kópavogsbæ. Stefán, sem er fæddur 1966, hefur starfað við tónlist meira eða minna frá tvítugsaldri.

„Hann skipaði sér fljótlega á bekk með þekktustu söngvurum þjóðarinnar og hefur hin auðþekkjanlega rödd Stefáns ómað reglulega úr viðtækjum landsmanna allar götur síðan. Hann hefur frá fyrstu tíð einnig látið til sín taka sem tón- og textahöfundur og liggja eftir Stefán á fjórða hundrað útgefin verk, en auk þess að semja fyrir sig og sína hefur hann samið töluvert fyrir aðra þjóðþekkta flytjendur,“ segir ennfremur.

Það var Karen Elísabet Halldórsdóttir, formaður lista- og menningarráðs sem afhenti Stefáni innrammað skjal til staðfestingar tilnefningunni að viðstöddum bæjarstjóra Ármanni Kr. Ólafssyni. Undir lok athafnarinnar tók Stefán lagið við fögnuð viðstaddra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert