Gera kröfu um ópólitískan bæjarstjóra

Framsóknarmenn ætla að fagna góðu gengi í kvöld.
Framsóknarmenn ætla að fagna góðu gengi í kvöld. mbl.is/Halldór Sveinbjörnsson

Það er skýlaus krafa Framsóknarmanna á Ísafirði að ráðinn verði ópólitískur bæjarstjóri, en flokkurinn er í lykilstöðu varðandi myndun nýs meirihluta. Lokatölur liggja fyrir í bæjarfélaginu, en Framsóknarflokkurinn fékk 22,4 prósent atkvæða og tvo bæjarfulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 34,6 prósent atkvæða og þrjá fulltrúa en Í-listinn fékk 43 prósent atkvæða og fjóra fulltrúa.

Marzelíllus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknarflokksins, telur að sú stefna flokksins að vilja ráða ópólitískan bæjarstjóra hafi haft mikið að segja um fylgið. „Það virðist hafa gengið vel í fólkið,“ segir hann í samtali við mbl.is. Þá hafi einnig skipt máli að vera með ungt og dugmikið fólk á listanum, töluvert yngra en áður hefur verið. „Menn þetta þekkja fólk bara af góðu. Það er kraftmikið. Við vorum gríðarlega heppin að fá þetta fólk með okkur í lið.“

Þrátt fyrir að vera í lykilstöðu segir Marzellíus Framsóknarmenn ekkert vera byrjaða að huga að myndun meirihluta. „Við erum ekki farin að gera eitt eða neitt í því. Nú ætlum við bara að fagna þessu og svo við ræðum við saman hópurinn og hugsum næsta skref. Það liggur ekki svo rosalega á.“

Hann segir ekkert hafa verið fyrirfram ákveðið varðandi hugsanlegt samstarf. „Það eina sem við vorum búin að ákveða var að heyra í þeim og kanna hvort þau væru ekki tilbúin í að ræða við okkur með það að markmiði að auglýsa eftir bæjarstjóra, af því þau eru bæði með bæjarstjóra efni hjá sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert