Finna ekki fyrir auknu brottfalli nemenda eftir styttinguna

Nýstúdentar.
Nýstúdentar. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Sögulegar brautskráningar úr framhaldsskólum landsins fara fram um þessar mundir. Þeir skólar sem fyrstir tóku upp þriggja ára námsleiðir útskrifa nú fyrstu nemendur sína úr því kerfi, auk þess sem þeir útskrifa jafnframt í síðasta sinn þá nemendur sem hófu nám í hinu eldra kerfi, þar sem nám til stúdentsprófs var fjögur ár. Því eru nú brautskráðir tvöfaldir árgangar nemenda í flestum framhaldsskólum landsins.

Skólastjórnendur framhaldsskóla á höfuðborgarsvæðinu virðast að meginstefnu ánægðir með þær breytingar sem stytting framhaldsskólanámsins hefur haft í för með sér fyrir skólana.

Þriggja anna kerfið svínvirkar

Menntaskólinn við Sund brautskráði alls 261 nemanda um síðastliðna helgi, 127 nemendur úr gamla kerfinu og 134 nemendur úr hinu nýja kerfi. Nokkurs brotthvarfs gætti meðal nemenda skólans úr fjögurra ára kerfinu. Már Vilhjálmsson, rektor skólans, segist sjá mikla breytingu eftir að skólinn tók upp breytta námsskrá. „Munurinn á þessum tveimur kerfum felst í því að það voru rétt um 200 nemendur sem byrjuðu árið 2015, en næstum enginn er hættur. Þeir sem ekki brautskráðust núna úr því kerfi munu því brautskrást á næstu önn, eða önninni þar á eftir og eru enn í skólanum.“

Skólinn tók jafnframt upp þriggja anna kerfi haustið 2016, þar sem skólaárinu er skipt í þrjár jafnlangar 12 vikna annir, haustönn, vetrarönn og vorönn. Már segir nýja kerfið hafa reynst afar vel. „Nýja kerfið er að virka mikið betur og við höldum mikið betur í nemendur. Brotthvarfið er nánast algjörlega að hverfa hjá okkur. Nýja námsleiðin og þetta nýja þriggja anna kerfi sem við erum með, með öllu því sem því fylgir, er að svínvirka.“

Skólinn hóf breytingar á námsskrá sinni vegna mikils brotthvarfs úr bekkjarkerfinu sem áður var. Már segir að skólinn hafi reynt að koma til móts við nemendur með þessum hætti. „Ástæðan fyrir því að það var svona mikið brotthvarf úr bekkjarkerfinu var að það er of ósveigjanlegt. Þessi nýja námsskrá, bæði þriggja anna kerfið og svo líka skólanámsskráin okkar, er þannig byggð upp að bekkjarkerfið hefði aldrei getað haldið utan um það. Bekkjarkerfið passar ekki fyrir skóla sem hefur þá stefnu sem við höfum í dag.“

Bjuggust við álaginu

Verzlunarskóli Íslands brautskráði einnig tvöfaldan árgang um síðastliðna helgi. Alls brautskráðust 543 nemendur úr skólanum. Ingi Ólafsson, skólastjóri Verzlunarskólans, segist ekki sjá aukið brottfall meðal nemenda eftir tilkomu þriggja ára námsins. „Nei, nei, það er ekki til,“ segir Ingi. „Eins og menn skilgreina brottfall þá er það nánast ekki neitt, þeir nemendur sem hefja nám á haustin taka nær allir próf um vorið. [...] En það er engin breyting á þessu eftir kerfisbreytinguna.“

Nemendum skólans stendur þó ekki til boða að taka námið á lengri tíma en þremur árum, eins og tíðkast í mörgum framhaldsskólum. „Það eru bara þrjú ár eða ekkert,“ segir Ingi.

Aðspurður hvort hann telji álag meðal nemenda vera meira nú en áður segir Ingi að svo sé. „Jú, því er ekki að leyna, álagið er aðeins meira.“ Skólinn lagði viðamikla könnun fyrir útskriftarnemendur sína í vor og m.a. var spurt um álag meðal nemenda. Könnunin leiddi í ljós að nemendum í þriggja ára náminu fannst álagið ekki vera of mikið. „Þeim finnst kannski mikið að gera en búast bara við því. Helst eru það nemendur sem eru mikið í íþróttum sem finna fyrir álagi,“ segir Ingi.

Ingi segist þó sjá nokkurn mun á þáttöku í nemendastörfum, en hann vonast til þess að hún fari batnandi. „Við miðum að því að styðja þau og aðstoða á allan hátt. Komum til móts við þau, svo nemendalífið gangi sem allra best, því það er jú stór partur af þessu,“ segir Ingi.

Verzlunarskólinn lét nemendur sína þreyta samræmt próf í íslensku og stærðfræði til þess að kanna námsárangur milli kerfanna. Ingi segir niðurstöðurnar áhugaverðar. „Það var nákvæmlega sama meðaleinkunn í íslensku í báðum hópunum, en í stærðfræðinni þá voru nemendur í þriggja ára náminu mun hærri. Við megum ekkert alhæfa neitt út frá þessu, en þetta er ákveðin vísbending.“

Nemendur vilji sjaldnast seinka námi

Kvennaskólinn í Reykjavík tók upp þriggja ára nám til stúdentsprófs árið 2012. Skólinn brautskráði 195 nemendur um síðastliðna helgi, sem er svipaður fjöldi og síðustu ár. Hjalti Jón Sveinsson, skólameistari Kvennaskólans, segir að um 90% þeirra nemenda sem hefji nám útskrifist á þremur árum. Aðrir nemendur taki heilt eða hálft ár við skólann til viðbótar. „Þau vilja sjaldnast seinka sér,“ segir Hjalti í samtali við mbl.is. Skólinn lagði fyrir könnun í vetur þar sem nemendur voru m.a. spurðir út í álag í náminu og sú könnun sýndi að 85% nemenda telji álagið hæfilegt.  

„Við verðum ekki vör við annað en að þetta gangi vel. Krakkarnir okkar eru jafnframt að standast vel samanburð við útskrifaða nemendur úr öðrum skólum þegar kemur að háskólanámi. Við gerum auðvitað meiri kröfur til þeirra, það er minni tími til að slóra, en okkur finnst þetta í lagi." Segir Hjalti.

Hjalti segist ekki finna fyrir því að félagslífið í skólanum hafi beðið hnekki af styttingu námsins. „Félagslífið hefur alltaf verið mjög öflugt hér við skólann og margir nemendur sem taka þátt í því. Það eru sett upp leikrit, árshátíðir og fleira," segir Hjalti. Þá sé aðallega sárt að sjá á eftir nemendum eftir árin þrjú, þar sem þau líði svo hratt.

mbl.is