Úrræði frestast og húsnæðið stendur autt

Ljóst er að vandinn á neyðarvistun Stuðla er mikill þegar …
Ljóst er að vandinn á neyðarvistun Stuðla er mikill þegar einstaklingar dvelja þar langtímum saman, segir í bréfi stjórnar Olnbogabarna. mbl.is/Hari

Í byrjun apríl var hávær umræða um skort á meðferðarúrræðum fyrir börn í vanda. Ljóst er að aðgerða er þörf og í fjölmiðlum var fjallað um nýtt meðferðarúrræði sem átti að opna innan 2 vikna. Nýlega bárust hins vegar fréttir um að ekkert verði af opnun fyrr en í september. Á meðan stendur húsnæði tómt og börn í bráðavanda fá ekki aðstoð, segir stjórn Olnbogabarna í bréfi sem hún hefur sent á Barnaverndarstofu.

„Ljóst er að vandinn á neyðarvistun Stuðla er mikill þegar einstaklingar dvelja þar langtímum saman, en við höfum vitneskju um að skjólstæðingur hafi verið vistaður í gæsluvarðhaldsherberginu á Neyðarvistun Stuðla meira og minna frá áramótum. Ljóst er að þar er farið verulega út fyrir hlutverk neyðarvistunar en hámarks dvalartími samkvæmt upplýsingum á vef Barnaverndarstofu er 14 dagar. Það úrræðaleysi sem blasir við þessum einstaklingi er klárt brot á mannréttindum viðkomandi og því hlýtur Barnaverndarstofa að vera að bregðast hlutverki sínu en henni ber að tryggja að viðeigandi meðferðarúrræði séu í boði hverju sinni.

Í kjölfar umræðu um kynferðisbrot á Vogi var lokað á aðgengi barna undir 18 ára að meðferð þar og ljóst að í dag er ekkert sérhæft vímuefnaúrræði í boði fyrir þennan hóp. Börn í miklum vanda eru vistuð innan um aðra skjólstæðinga sem eiga enga samleið og draga verulega úr líkum á að þeir taki meðferð. Þessir einstaklingar þurfa annars konar úrræði.

Núna í dag eru einstaklingar í "geymslu" á Stuðlum, Laugalandi og Lækjarbakka sem þurfa sárlega úrræði sem eru ekki til.

Eins er nánast útilokað að fá aðstoð við tvíþættum vanda fyrir þennan hóp einstaklinga, en oft á tíðum er neysla og áhættuhegðun ekki orsök heldur afleiðing. Mjög brýnt er að þessi börn fái aðgengi að aðstoð sem tekur á rót vandamála þeirra, sem er oftar en ekki tengd undirliggjandi geðsjúkdómum/röskunum eða áföllum sem börnin hafa lent í.

Hvaða úrræði ætlar Barnaverndarstofa að bjóða þessum hópi barna?

Nú hefur stjórnendum Barnaverndarstofu verið tíðrætt um að aðsókn að úrræðum hafi farið minnkandi og því hafi úrræðum verið lokað síðastliðin ár. Hins vegar sýna tölur að vandi barna sé að vaxa og sem dæmi hafa aldrei verið fleiri leitarbeiðnir hjá Lögreglu en á þessu ári. Væri ekki nær að skoða og hlusta á starfsmenn barnaverndarnefnda um það hver raunveruleg ástæða fyrir minnkandi aðsókn er að þeim fáu úrræðum sem eru í boði? Gæti verið að starfsmenn barnaverndarnefnda séu að reyna að forðast blöndun á mjög veikum einstaklingum? Er ástæðan kannski sú að fleiri og fjölbreyttari úrræði vantar?“ segir í bréfi stjórnar Olnbogabarna.

Barnaverndarstofa.
Barnaverndarstofa. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert