Íslendingar stýra alþjóðlegri heilsukönnun

Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði.
Sigrún Ólafsdóttir og Jón Gunnar Bernburg, prófessorar í félagsfræði. mbl.is/Golli

Vísindamönnum við Háskóla Íslands hefur verið falið að leiða hönnun á spurningalista Alþjóðlegu viðhorfskönnunarinnar (International Social Survey Programme) árið 2021. Könnunin er lögð fyrir í um 40 löndum víða um heim en hún var fyrst lögð fyrir í Þýskalandi, Bretlandi, Ástralíu og Bandaríkjunum árið 1985.

Ísland hefur verið með nær álega frá árinu 2009 og hefur Sigrún Ólafsdóttir, prófessor í félagsfræði, ásamt Félagsvísindastofnun HÍ, haft umsjón með könnuninni hér á landi síðan þá. Sigrún var í námi í Bandaríkjunum þegar hún kynntist Tom Smith, sem fer fyrir viðhorfskönnuninni General Social Survey, í Bandaríkjunum og vildi endilega sjá Ísland meðal þátttökuþjóða. Sigrún segir að könnunin hafi komið til vegna áhuga fræðimanna á að bera saman eigin lönd við önnur í stað þess að geta bara skoðað þróun innan eigin samfélags.

Könnunin sem Íslendingar munu leiða árið 2021 snýr að heilsu en það var síðast viðfangsefni könnunarinnar árið 2011. Fulltrúar Íslands voru kosnir í hópinn sem semur spurningarnar ásamt Indlandi, Tékklandi, Ísrael og Suður-Afríku, en íslensku fulltrúarnir koma til með að leiða vinnuna. Þar sem könnunin er endurtekin frá árinu 2011 eru hópnum settar ákveðnar skorður, en meðal annars er spurt um viðhorf til heilbrigðiskerfisins, læknastéttarinnar, réttlætis í heilbrigðiskerfinu, heilsutengda hegðun og heilsufar, að því er fram kemur í tilkynningu frá Háskóla Íslands.

„Það sem drífur okkur áfram sem fræðimenn er birtingar í fræðiritum og greinum,“ segir Sigrún en bætir við að áhugi meðal fræðimanna á að koma niðurstöðum að við gerð stefnumótunar sé að aukast og vonandi áhugi stjórnvalda. „Maður myndi telja að viðhorf almennings ættu að vera tekin alvarlega við stefnumótun.“

Viðhorf til ríkisafskipta jákvæð hérlendis

Niðurstöður eldri kannana eru aðgengilegar inni á heimasíðu könnunarinnar. Spurð hvað veki mesta athygli í samanburði á Íslandi og öðrum löndum gegnum árin segir Sigrún að almennt megi segja að Íslendingar séu frjálslyndir og jafnréttissinnaðir og jákvæðastir þjóða í garð innflytjenda. Þá séu viðhorf til afskipta ríkisvaldsins óvenju jákvæð, einkum í velferðarkerfinu.

Sigrún tekur dæmi af nýjustu könnun ISSP þar sem spurt var hvort ríkið ætti að bera ábyrgð á heilbrigðisþjónustu. Töldu 89% aðspurðra Íslendinga það öruggt að svo væri en 10% sennilegt að þannig ætti málum að vera háttað. Það er hæsta hlutfall sem mælist jákvætt í öllum þátttökulöndunum.

Að jafnaði er miðað við að um 1.400 taki könnunina hér á landi. Sigrún segir að framkvæmd könnunarinnar sé mismunandi milli landa, en sérstök aðferðafræðinefnd, sem Íslendingar eiga sæti í, sér til þess að framkvæmdin í hverju landi uppfylli strangar aðferðafræðikröfur. Á Íslandi er bæði notast við síma- og netkannanir auk þess sem viðtöl eru tekin í persónu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert