Trommurnar í farteski KSÍ

Tólfan fagnar með landsliðsmönnum.
Tólfan fagnar með landsliðsmönnum. mbl.is/Golli

Þrjár trommur og fána Tólfunnar var að finna í miklum farangri landsliðsins í fótbolta á leið til Rússlands í síðustu viku. Þessi þarfaþing á landsleikjum eru nú í geymslu á hóteli landsliðsins í borginni í Kabardinka og verða þar þangað til landsliðið fer til Moskvu á morgun.

Á leikdegi sér KSÍ um að koma fánum og trommum á leikvanginn þar sem Tólfumenn hitta Víði Reynisson, öryggisstjóra KSÍ, að morgni leikdags. Trommunum verður síðan komið fyrir í fremstu röð í hólfum Íslendinga tímanlega fyrir leikinn við Argentínu á laugardag.

Ærið starf í forystu Tólfunnar

Sveinn Ásgeirsson, varaformaður Tólfunnar, segir að það hafi einfaldað alla flutninga að Knattspyrnusamband Íslands tók þá að sér. Einnig hafi KSÍ komið til móts við Tólfuna með því að borga flug, hótel og aðgöngumiða fyrir tíu manns á hvern leik í riðlakeppninni. Tólfan skipti liði og fari 10 manns á hvern leik. „Vonandi verða endalaust margar Tólfur á leikjunum í Rússlandi því að allir sem styðja landsliðið eru í raun í Tólfuhópnum,“ segir Sveinn. Hann segir að sendiherra Rússlands á Íslandi hafi talað um fimm þúsund Íslendinga, en Sveinn segist sjálfur gera sér vonir um að 3-4 þúsund landar verði á fyrsta leiknum.

„Við munum sannarlega láta heyra í okkur,“ segir Sveinn. „Við höfum verið að undirbúa okkur á síðustu þremur landsleikjum karla og kvenna á Laugardalsvellinum og það kemur í ljós hvort við verðum með nýjungar og hvort þær virka eða ekki.“

Hann segist ekki enn vera orðinn spenntur, verði það tæpast fyrr en hann verði búinn að innrita töskuna á Keflavíkurflugvelli á föstudaginn. „Það hefur verið meira en nóg að gera og endalaust eitthvað sem komið hefur upp á. Fyrir þetta mót hefur hvert verkefnið tekið við af öðru og það hefur næstum því verið full vinna við hliðina á aðalstarfinu að tilheyra forystu Tólfunnar.“

Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert