Reykur í skipi við Sundahöfn

Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna reyks í flutningaskipinu Blikur.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins var kallað út vegna reyks í flutningaskipinu Blikur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út að Sundahöfn vegna tilkynningar um reyk í flutningaskipinu Blikur. Tveir slökkviliðsbílar voru sendir á vettvang ásamt sjúkrabílum. Enginn er slasaður samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu. Dráttarbáturinn Magni dregur vélarvana flutningaskipið að landi.

„Við erum á vettvangi af því að okkur barst tilkynning um að það væri reykur í skipinu og við erum á vettvangi til að tryggja að það sé ekki eldur í skipinu,“ sagði fulltrúi slökkviliðsins í samtali við fréttastofu mbl.is.

Ekki er vitað um orsök reyksins sem kemur frá vélarrúmi skipsins en mögulega var um túrbínusprengingu að ræða samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði.

Slökkviliðið er um borð í skipinu og hefur tekist að ráða niðurlögum eldsins sem var ekki mikill segir öryggisfulltrúi Faxaflóahafna.

Fréttin var uppfærð klukkan 13:13.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert