Gullöld íslenskra íþrótta lokið?

Áhorfendur fylgjast með leik Íslands og Króatíu á Ingólfstorgi.
Áhorfendur fylgjast með leik Íslands og Króatíu á Ingólfstorgi. AFP

Ekki er sjálfgefið að uppsveiflan í íslensku íþróttalífi, sem náði mögulega hámarki á HM í Rússlandi, haldi endilega áfram, að áliti Viðars Halldórssonar íþróttafélagsfræðings.

„Ég held við séum mögulega búin að ná hámarkinu. Í víðara samhengi þá hafa síðustu tíu ár verið gullöld íslenskra íþrótta og ekki bara í fótbolta. Á tímabilinu milli 1958 til 2008 komst íslenska landsliðið í handbolta karla á einhver 24 stórmót en Íslendingar komust ekki á stórmót í neinni annarri íþrótt. Á síðustu tíu árum höfum við áfram farið á flest stórmót í handbolta karla, en líka á þrjú stórmót í handbolta kvenna, þrjú stórmót í knattspyrnu kvenna, tvö stórmót í knattspyrnu karla og tvö stórmót í körfubolta karla. Við erum að upplifa algjöran hápunkt í íslensku íþróttalífi og það er mjög ósennilegt að við höldum dampi í öllum þessum íþróttum á næstu árum. Það væri frábær árangur að halda áfram að komast á þessi mót og ná stundum langt, en við getum ekki gert ráð fyrir að gera það alltaf.“

Höfðatalan horfin

Viðar segir að það vinni með Íslandi að þessi mót séu að stækka og liðum að fjölga. „Þetta eykur möguleika okkar á að komast inn á þessi mót en nú erum við líka komin með meiri þekkingu og reynslu á þessum mótum, og meira sjálfstraust. Fyrir 10-15 árum vorum við alltaf að tala um hvað við vorum góð miðað við höfðatölu en í dag heyri ég engan tala um það, einfaldlega vegna þess að við erum komin svo miklu lengra en við vorum. En það þýðir ekki að við verðum alltaf þar því að á alþjóðlegum vettvangi breytast íþróttir mjög hratt,“ segir Viðar og bætir við að stóru löndin sem hafi áður misst fótanna séu nú að koma betur saman sem lið.

„Þegar við skutum Englendinga út á síðasta EM voru þeir ekki með ákveðin prinsipp á hreinu, en nú eru þeir með mörg af þessum eiginleikum sem íslenska liðið býr yfir eins og stemningu og liðsheild. Sumir vilja jafnvel meina að tapið fyrir Íslandi sé það besta sem gat komið fyrir enska knattspyrnu. Þetta snýst ekki bara um hvað við gerum, heldur hvað gerist í íþróttum almennt séð. En nú erum við komin með sterkt bakland – sjálfstraust og þekkingu til að taka næstu skref, svo framarlega sem við pössum upp á þessi gildi sem hafa komið okkur á þann stað sem við erum á í dag.“

Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur.
Viðar Halldórsson íþróttafélagsfræðingur. Valgarður Gíslason
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »