Íslendingar í 8. sæti á bridge-móti

Hrannar Erlingsson og Sverrir G. Kristinsson stoltir í Óperuhúsinu í …
Hrannar Erlingsson og Sverrir G. Kristinsson stoltir í Óperuhúsinu í Ósló í dag með verðlaunin fyrir 8. sætið, 15.000 norskar krónur, tæpar 200.000 íslenskar. Ljósmynd/Margrét Björk Jóhannesdóttir

„Þetta var glæsilegt en maður vill auðvitað alltaf gera betur,“ segir Sverrir G. Kristinsson bridge-spilari í samtali við mbl.is en þeir félagarnir, hann og Hrannar Erlingsson, gerðu sér lítið fyrir og hrepptu 8. sætið af 179 á Marit Sveeas-bridge-mótinu sem haldið var í Óperuhúsinu í Ósló um helgina og mbl.is sagði frá í spjalli við þá félaga í gærkvöldi.

„Við spiluðum við allan toppinn í dag,“ segir Sverrir frá og á þar við þau lið sem best stóðu að stigum eftir gærdaginn þegar spilamennska hófst á ný klukkan tíu í morgun, klukkan átta að íslenskum tíma. Sverrir og Hrannar mættu þá norsku atvinnu- og landsliðsmönnunum Boye Brog­e­land og Espen Lindqvist og sigruðu þá með 50 í plús. „Það var ansi magnað og við fengum hrós fyrir þá viðureign þegar við settumst á móti næsta pari,“ segir Sverrir frá.

En hvernig gekk þá það sem eftir var? „Ein seta [seta er þrjú spil] var smá mínus, ein seta var mjög mikill mínus og svo náðum við einni svakalega góðri sem var 200 stig í plús en hinar þrjár voru svona í kringum núllið,“ segir Sverrir.

Hann segir þá Hrannar heilt yfir hafa skorað nokkuð vel enda hafi andstæðingarnir ekki verið neinir aukvisar og um býsna sterkt alþjóðlegt mót að ræða. „Þarna voru landsliðsmenn í hrönnum, frá Noregi, Svíþjóð og Póllandi og einn heimsfrægur spilari frá Bandaríkjunum,“ segir Sverrir og telur einnig upp sterk lið frá Belgíu, Hollandi og Tékklandi en þegar upp var staðið hafi það verið norskir landsliðsmenn sem röðuðu sér í efstu sætin. Önnur íslensk lið segir Sverrir flest hafa verið í efri helmingi sætanna við mótslok.

Hvað er þá næst á döfinni hjá „makkerunum“ Sverri og Hrannari? „Ja, það er nú alltaf ákveðin deyfð yfir spilamennskunni á sumrin en svo tekur þetta sig upp að hausti og þá byrjar „seasonið“ aftur, það eru klúbbar sem spila út um allt en Bridgesamband Íslands skipuleggur mót yfir veturinn og þá er margt að gerast. Þetta er bara eins og fótboltinn nema okkar „season“ er á veturna,“ segir Sverrir bridge-kempa og hlær frá Gardermoen-flugvellinum þar sem þeir Hrannar ásamt eiginkonum sínum voru einmitt að fá tilkynningu um þriggja tíma seinkun á fluginu til Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert