Göt fundust á sjókví í Tálknafirði

Arnarlax er með sjókvíaeldi á laxi á Vestfjörðum.
Arnarlax er með sjókvíaeldi á laxi á Vestfjörðum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Göt fundust í gær á sjókvíum laxeldisfyrirtækisins Arnarlax í Tálknafirði við reglubundið eftirlit starfsmanna. Viðbragðsáætlun var virkjuð og voru reknet lögð út við kvína til að koma í veg fyrir að fiskur slyppi út. Ekki liggur fyrir hversu margir fiskar hafa sloppið.

Arnarlax tilkynnti um atvikið á vefsíðu sinni í gær, en þar kemur fram að um tvö göt hafi verið að ræða. Var annað þeirra 100x50 sentímetrar að stærð og hitt 100x70 sentímetrar.

Var Matvælastofnun, Umhverfisstofnun og Fiskistofu tilkynnt um atvikið og voru starfsmenn Fiskistofu og Matvælastofnunar væntanlegir vestur til ráðgjafar og eftirlits.

Fram kemur í tilkynningunni að fiskurinn í kvínni hafi verið fremur stór og var meðalþyngd hans um 3,5 kíló. Talið er að bilun hafi komið upp í upphífingakerfi netapoka með þeim afleiðingum að rof myndaðist í netinu og göt komu á kvína.

Í febrúar á þessu ári laskaðist ein eldiskví fyrirtækisins í óveðri með 500-600 tonnum af eldislaxi. Drápust um 53 þúsund fiskar í slysinu. Matvælastofnun sagði eftir slysið að Arnarlax hefði brugðist rétt við tjóninu með að setja verkferla af stað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert