Kominn í grafreit draumanna

Sjósundkappinn Jón Kristinn Þórsson lagði af stað yfir Ermarsundið frá …
Sjósundkappinn Jón Kristinn Þórsson lagði af stað yfir Ermarsundið frá Shakespeare-strönd í Dover kl. 5:28 að staðartíma. Ljósmynd Jóhannes Jónsson

Jón Kristinn Þórisson nálgast strönd Frakklands og er nú að fara inn á erfiðasta hluta Ermarsundsins, grafreit draumanna svokallaða. Jón hefur verið á sundi í um 13 klukkustundir og hefur ekki lent í teljandi vandræðum á leiðinni.

Jóhannes Jónsson, aðstoðarmaður Jóns Kristins við Ermarsundið, segir að það ráðist fljótlega hvort honum tekst ætlunarverkið – að synda yfir Ermarsundið – en erfitt getur reynst að ná straumi að strönd Frakklands. Stutt er til lands ef horft er frá bátnum sem fylgir Jóni Kristni að sögn Jóhannesar en það segir aðeins hálfa söguna því straumarnir eru þungir og erfiðir og rekur sundkappann töluvert. 

Jóhannes segir að Jón sé við góða heilsu og nærist vel en það eina sem hafi komið upp á var marglyttuvaða sem hann lenti í fyrr í dag. Það slapp ágætlega til og amar ekkert að sundkappanum eftir að hafa synt í gegnum vöðuna.

Jón Kristinn er vanur sjósundi en hann hefur m.a. synt Drangeyjarsund og frá Vestmannaeyjum til Landeyjarsands. Með honum í för eru tveir Ermarsundsfarar, þau Benedikt Hjartarson sem synti yfir Ermarsundið árið 2008 og Sigrún Þ. Geirsdóttir sem synti yfir árið 2015, auk þeirra eru þeir Arnar Þór Egilsson og Jóhannes Jónsson til aðstoðar. Benedikt varð fyrstur Íslendinga til þess að synda yfir Ermarsundið og Sigrún fyrst íslenskra kvenna.

Frétt

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert