Engan bilbug að finna á lúsmýinu

Þrátt fyrir vætusamt sumar á Suður- og Suðvesturlandi hefur lúsmýið …
Þrátt fyrir vætusamt sumar á Suður- og Suðvesturlandi hefur lúsmýið nýtt sér þá lygnu og þurru daga, sem hafa komið. Ljósmynd/Erling Ólafsson

„Það sem ég heyri mest af er í uppsveitum Suðurlands. Svæsnast í Bláskógabyggð, Hrunamannahreppi og á öðrum slóðum þar í kring,“ segir Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, í samtali við Morgunblaðið um hvar lúsmýið, sem hefur leikið margan manninn grátt, hefur breitt úr sér það sem af er sumri.

Einnig er mikið um lúsmý í Kjósarhreppi, en mýið hefur náð öflugri fótfestu á Suðvesturlandi á síðustu árum og færist nú sunnar. Eitthvað er um lúsmý í Fljótshlíð, að sögn Erlings, en í mun minna magni og ku mýið ekki vera eins ágengt þar.

Ekki nýr landnemi

Aðspurður hvort hann þekkti til tilvika aðeins norðar frá bólfestu lúsmýsins í Kjós, s.s. í Borgarfirði, segist Erling ekki hafa heyrt af því. Þó hefur orðið vart við lúsmý norðan við Hvalfjörð og í Skorradal undanfarin ár, bætir Erling við. „Ég er búinn að vera fjarri þannig að ég er ekki alveg „tengdur“ við þetta allt saman, og fólk hefur átt erfitt með að ná í mig til að kvarta,“ segir Erling léttur í bragði.

Þrátt fyrir vætusamt sumar á Suður- og Suðvesturlandi hefur lúsmýið nýtt sér þá lygnu og þurru daga, sem hafa komið. „Það þarf bara að vera logn og það er nú oft lygnt við sumarhús, sem eru umlukin trjágróðri. Fólk sleppur við mýið þar sem golan er,“ segir Erling.

Hann vill ekki meina að það lúsmý sem bítur fólk sé nýr landnemi. „Ég hef ákveðnar vísbendingar um að lúsmýið hafi verið hér lengi. Eitthvað hefur þó gerst sem veldur því að mýinu hefur fjölgað. Ýmsum öðrum tegundum hefur einnig fjölgað hratt og er ég að reyna að tengja þá fjölgun við hlýnandi loftslag.“

Sjá má kort af útbreiðslu lúsmýs í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert