Lægð sendir okkur dótturlægð

Úrkomuspá fyrir landið á morgun, föstudag, klukkan 18.
Úrkomuspá fyrir landið á morgun, föstudag, klukkan 18. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Þungbúinn morgunn heilsar landsmönnum, en skýjahulan brotnar fljótlega upp sunnan- og vestanlands og góðar líkur að sjást til sólar þar eftir hádegi. „Eins og við er að búast stendur góðviðrið stutt því næsta lægð er í startholunum við Labrador,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands snemma í morgun. „Lægðin sú arna sendir til okkar dótturlægð, sem hreyfist allhratt austur á bóginn. Á morgun er lægðin komin yfir Grænlandshaf og snýst þá í sunnakalda með rigningu á vestanverðu landinu. Einnig búist við smávætu fyrir austan um kvöldið. Til huggunar helst þó áfram fremur hlýtt í veðri,“ skrifar veðurfræðingurinn.

Í dag er spáð 10 til 18 stiga hita og að hlýjast verði sunnanlands. Á morgun mun Norðausturland enn á ný hafa hitavinninginn. Á vef Veðurstofunnar er varað við snörpum vindhviðum á norðanverðu Snæfellsnesi á morgun.

Veðurhorfur á landinu næstu daga:

Á föstudag:
Sunnan og suðvestan 8-13 m/s og rigning, en þurrt á austanverðu landinu til kvölds. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast norðaustanlands. 

Á laugardag:
Suðvestlæg átt, víða 3-8 m/s, en norðlægari á Vestfjörðum. Víða dálítil væta, en þurrt að kalla eystra. Hiti 8 til 18 stig, hlýjast fyrir austan. 

Á sunnudag:
Vestlæg átt, 3-10 m/s, en norðlægari fyrir norðan. Væta í flestum landshlutum, en þurrt suðaustan til. Hiti 6 til 17 stig, hlýjast á Suðausturlandi. 

Á mánudag:
Norðlæg átt og rigning eða súld á norðanverðu landinu en skýjað með köflum og stöku skúrir syðra. Kólnandi veður. 

Á þriðjudag:
Austlæg eða breytileg átt, væta með köflum og svalt í veðri. 

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðaustanátt með rigningu og hlýnandi veðri, en þurrviðri fyrir norðan og austan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert