Landeigendur lokuðu leið göngufólks við Brúará

Eigendur jarðarinnar Ártungu hafa sett upp skilti skammt frá Brúará …
Eigendur jarðarinnar Ártungu hafa sett upp skilti skammt frá Brúará þar sem þeir minna á að landið sé í einkaeign og að umferð um það í óleyfi sé bönnuð. mbl.is

Eigendur jarðar við Brúará í Bláskógabyggð hafa bannað alla umferð gangandi um land sitt og þar með aðgengi að Hlauptungufossi. Þetta segja þau neyðarúrræði til að vernda megi viðkvæma náttúru. Annar landeigandi við ána hafði í samvinnu við sveitarfélagið hafið framkvæmdir við uppbyggðan göngustíg meðfram ánni sem hann taldi sig hafa munnlegt samþykki annarra landeiganda fyrir. Við slíkt kannast þeir hins vegar ekki og telja sig í fullum rétti að loka svæðinu. Landeigendurnir eru allir sammála um að mikil náttúruspjöll hafi hlotist af auknum fjölda ferðamanna um svæðið. Þá greinir hins vegar á um leiðir til úrbóta.

Ferðamálafulltrúi í uppsveitum Árnessýslu ætlar að hvetja til þess að sveitarfélagið miðli málum svo farsæll endir fáist.

Spjöll og ónæði

 „Upphaf verkefnisins má rekja til þess að ferðamannastraumur upp með ánni og oft í gegnum sumarbústaðahverfi og að Brúarfossi hafði stóraukist,“ segir Rúnar Gunnarsson, ábúandi á Efri-Reykjum, sem á land að ánni og stendur að framkvæmdunum. Á landi hans er sumarhúsabyggð, Reykjaskógur. „Þetta var farið að valda náttúruspjöllum og ónæði fyrir sumarhúsafólkið. Göngufólk lagði bara einhvers staðar og gekk ómerktar leiðir að Brúarfossi. Þannig höfðu verið troðnir margir stígar hér og þar og oft myndast drullusvað á köflum.“

Á þessu korti má sjá brúnlitað það landsvæði sem nú …
Á þessu korti má sjá brúnlitað það landsvæði sem nú hefur verið lokað af fyrir umferð göngufólks. Hlauptungufoss er rétt neðan við miðju við lokaða svæðið. mbl.is

Ábúendur á Efri-Reykjum fóru því í það verkefni, í samvinnu við sveitarfélagið Bláskógabyggð, að byggja upp og bæta gönguleið sem þegar var fyrir hendi næst ánni. Var það að mati Rúnars nauðsynlegt til að stýra umferð í einn og sama farveginn og þannig draga úr spjöllum og bæta um leið aðgengi ferðamanna að Brúarfossi og allri fossaröðinni í Brúará.

Fengu styrk úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða

Í samvinnu við sveitarfélagið fékkst styrkur til verksins úr framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Framkvæmdin fól í sér íburð í stíginn, göngubrýr og stiga yfir læki, frá brúnni yfir Brúará við Laugarvatnsveg (þjóðveg númer 37) og að Brúarfossi, alls um 3,4 kílómetra leið. Framkvæmdirnar eru að stærstum hluta í landi Efri-Reykja en á tæplega eins kílómetra kafla í landi Ártungu. Rúnar segir að munnlegt samþykki landeigenda þar hafi legið fyrir áður en framkvæmdir hófust.

„Stígurinn sem var þarna fyrir var oft drullukenndur og blautur,“ segir Rúnar um endurbæturnar. Ekki stóð til að leggja nýja gönguleið nema á stuttum kafla í landi Efri-Reykja, næst þjóðveginum. „Að öðru leyti átti að bæta stíg á leið upp með ánni sem hefur verið gengin í fleiri ár.“

Stigar yfir lækni voru að sögn ábúanda á Efri-Reykjum fjarlægðir …
Stigar yfir lækni voru að sögn ábúanda á Efri-Reykjum fjarlægðir og bannskiltum hefur verið komið fyrir. mbl.is

Rúnar segir að umferð um stíginn sé mikil, sérstaklega á góðviðrisdögum, jafnvel meiri en von var á. „Þannig að það fóru að renna tvær grímur á hina landeigendurna svo að þeir drógu til baka samþykki sitt.“

Sýnir efasemdum skilning

Hann segist hafa á þessu ákveðinn skilning en telji þó að sú aðgerð að banna umferð gangandi um landið sé ekki rétta leiðin.

Á jörðinni Ártungu eru sumarhús og eru nokkrir tugir metra frá einu þeirra að gönguleiðinni sem liggur að sögn Rúnars í niðurgröfnum farvegi rétt við árbakkann.

Rúnar segir landeigendur Ártungu hafa haft samband við sig fyrir nokkru síðan og tilkynnt afstöðu sína: Þeir vildu loka leiðinni. Hann vonaðist eftir að lausn myndi finnast en í gær hafi þeir tekið upp stiga á leiðinni og sett niður skilti sem banna alla umferð. „Og nú er bara búið að loka,“ segir Rúnar, „og þar með er einn af þremur fossum á þessari gönguleið orðinn óaðgengilegur.“

Framkvæmdir hafnar

Framkvæmdir á þessum hluta leiðarinnar voru ekki enn hafnar vegna efasemda landeiganda Ártungu en þær eru hins vegar nokkuð langt á veg komnar beggja vegna hans.

Nú þurfa göngumenn að taka á sig stóran krók vilji þeir ganga frá bílastæðinu við þjóðveginn og að Brúarfossi. Rúnar óttast að af þessu muni hljótast enn frekari náttúruspjöll. „Ferðamaðurinn er þannig að hann finnur sér alltaf leið. Það mun nú koma í ljós hvaða leiðir þeir munu fara. En eins og staðan er núna er þeim bannað að fara þarna upp með ánni og meðfram fossinum.“

Leiðin sem fólk gengur í landi Ártungu er á köflum …
Leiðin sem fólk gengur í landi Ártungu er á köflum orðinn eitt drullusvað. mbl.is

Í fyrra setti Rúnar niður skilti við brúna á þjóðveginum til að auðkenna þar bílastæði fyrir þá sem vildu ganga upp að Brúarfossi. Þetta gerði hann þar sem fólk var farið að leggja vítt og breitt í nágrenninu, m.a. við afleggjara að sumarbústöðum og valda þar með ónæði. Einnig setti hann niður skilti við upphaf gönguleiðarinnar sem vísaði í átt að Brúarfossi. Þessi skilti tók hann niður fyrir nokkrum vikum eftir að landeigendur Ártungu fóru að láta í ljós efasemdir um endurbæturnar.

Lagt um allar trissur

„Þetta varð svo sem aðeins til þess að ferðamenn fóru að leggja út um allt á ný, ekki á bílastæðinu sem þarna hefur verið útbúið,“ segir Rúnar um afleiðingarnar.

Hann segist fyrst hafa komið að Efri-Reykjum á unglingsaldri og að þá hafi þegar verið troðin gönguleið um svæðið sem nú er búið að loka. Hann segir slóðann sjást vel á loftmyndum. „Þetta hefur ekki verið malarborinn stígur, heldur kindastígur sem fólk fór svo að nota.“

Meiri umferð en nokkurn óraði fyrir

Guðný Björg Kristjánsdóttir, einn þriggja eigenda Ártungu tekur undir með Rúnari að straumur ferðamanna upp með ánni hafi aukist gríðarlega á stuttum tíma, „meira en maður gat gert sér í hugarlund.“

Mik­il gróðureyðing við Hlauptungu­foss í landi Ártungu.
Mik­il gróðureyðing við Hlauptungu­foss í landi Ártungu. mbl.is

Hún telur að hundruð manna fari um stíginn á hverjum degi, jafnt sumar sem vetur. „Þetta hefur valdið meiriháttar umhverfisspjöllum á landi okkar, sérstaklega á kafla frá Hlauptungufossi og niður úr. Þarna eru nú komnir alls konar villustígar um allt, það fylgir þessu mikill sóðaskapur því fólk gerir þarfir sínar í skóginum og skilur eftir pappír og annað.“ Þá er hluti svæðisins að sögn Guðnýjar orðinn eitt drullusvað. Viðkvæmur gróður hafi verið troðinn niður og nær allur holtagróður í kringum Hlauptungufoss sé horfinn.

Meðfram ánni hefur alltaf verið kindastígur að sögn Guðnýjar, „aðeins troðningur. En það má segja að síðasta sumar hafi orðið sprenging í komu göngufólks og í ár hefur endanlega keyrt um þverbak.“

Hún þvertekur fyrir að samkomulag hafi verið gert milli landeigenda um lagningu uppbyggðs göngustígs. Hugmynd þess efnis hafi verið rædd, án aðkomu sveitarfélagsins, en ekkert ákveðið. „Svo fara framkvæmdir af stað og við lásum reyndar fyrst um þær í blöðunum. Þetta kom okkur algjörlega í opna skjöldu.“

Á þessu ári hafi svo landeigendur Ártungu komið sinni afstöðu á framfæri. „Við viljum alls ekki að þessi stígur verði lagður þarna. Ég held að enginn sumarhúsaeigandi myndi vilja fá allan þennan fjölda ferðamanna í gegnum sitt land.“

Algjört neyðarúrræði

Hún segir það þó algjört neyðarúrræði að loka fyrir umferð um svæðið. Það sé hins vegar nauðsynlegt til að hlífa viðkvæmri náttúrunni.

Í landi Ártungu skammt frá Hlauptungufossi. Hér má sjá hvar …
Í landi Ártungu skammt frá Hlauptungufossi. Hér má sjá hvar uppbyggði stígurinn endar og troðningur tekur við. mbl.is

Hún segist ósammála því að það yrði góð lausn að beina umferðinni um einn stíg niður við ána. Landeigendur í Ártungu vilji frekar að gönguleið verði útbúin handan árinnar, í landi þar sem ekkert sumarhús sé að finna. Annar kostur væri að gera stíg frá malarvegi ofan Ártungu, í landi bændanna. „Þetta eru að okkar mati þeir kostir sem koma helst til greina, vilji bændur á annað borð að ferðamenn fari að Brúarfossi.“ Ekki eigi  að vísa öllum ferðamannastraumnum í gegnum þeirra land eins og hafi verið gert með skiltum við bílastæðið við þjóðveginn.

Í fullum rétti

Guðný segir að vegna umhverfisspjallanna og ónæðis hafi því nú verið gripið til þess neyðarráðs að loka stígnum með því að setja upp skilti sem á stendur að um einkaland sé að ræða og að öll umferð sé bönnuð.

„Það verður að láta reyna á þetta,“ svarar hún aðspurð um hvort hún telji þetta duga til. „Þetta höfum við gert í samráði við fleiri en einn lögfræðing. Þeir hafa sagt okkur að við séum í fullum rétti til að banna umferð um landið okkar.“

Guðný segir að eigendur Ártungu vilji eiga í góðu samstarfi og vinna málið í sátt við aðra landeigendur og sveitarfélagið. „En við viljum auðvitað að fundin verði lausn á þessu máli sem við öll getum sætt okkur við.“

Landeigandi að gera sitt besta

Ásborg Ósk Arnþórsdóttir, ferðamálafulltrúi í uppsveitum Árnessýslu, segir að snúin mál eins og þessi séu víðar að koma upp og nokkuð fyrir séð. Umferð að náttúruperlum hafi stóraukist samhliða aukinni ferðamennsku og þó að landeigendur geri ekki athugasemdir við nokkra göngumenn kæri þeir sig ekki endilega um þann mikla fjölda sem oft verður svo raunin. Þá snúist fólki hugur.

Gengið eftir þeim hluta göngustígsins sem hefur nú verið uppbyggður.
Gengið eftir þeim hluta göngustígsins sem hefur nú verið uppbyggður. mbl.is

Hún segir að Bláskógabyggð hafi verið hlynnt því að stígur yrði lagður á gönguleiðinni sem hefur notið sívaxandi vinsælda undanfarin ár. „Við höfum verið mjög jákvæð gagnvart þessu verkefni,“ segir hún. „Þarna er landeigandi að gera sitt besta til að náttúran skaðist ekki en þá kemur upp þessi viðkvæma pattstaða. Alls konar mál tengd aðgengi og umgengni um landið eru að koma upp víðar því fólk sá ekki fyrir þessar miklu breytingar sem fylgt hafa aukinni ferðamennsku.“

Að hennar mati er aðalatriðið nú að allir aðilar málsins setjist niður, ræði málin og finni lausn sem allir geti sætt sig við. Ætlar hún að hvetja til þess að sveitarfélagið reyni að miðla málum svo farsæll endir fáist. „Þessi gönguleið er sjálfsprottin ef svo má segja. Það mun ekkert breytast þó að hluta hennar sé lokað. Fólk finnur sér leið um og þá jafnvel um allt. Þá verður vandamálið enn stærra og meira.“

Heiðarleg tilraun

Áður en verkefnið við lagningu stígsins var skilgreint og framkvæmdir hófust leituðu ábúendur að Efri-Reykjum ráða og leiðsagnar hjá ýmsum sem þekkja til stígalagningar og aðgengismála. „Reyndur landvörður sagði við okkur að það væri ekki hægt að stöðva för göngufólks, það eina sem væri hægt að gera væri að reyna að stýra umferðinni. Og það var það sem við vildum gera til að hlífa landinu og gerðum þarna heiðarlega tilraun til þess.“

Hann segir að vissulega væri mögulegt að leggja nýjan stíg í kringum þeirra land en það yrði stór framkvæmd og langur krókur á leið göngufólks, „og þá yrði Hlauptungufoss ekki á þeirri leið“.

Hlauptungufoss er einn af þremur fossum í Brúará.
Hlauptungufoss er einn af þremur fossum í Brúará. mbl.is/

Mistökin sem Rúnar gerði að eigin mati, eftir á að hyggja, voru þau að fá aðeins munnlegt samþykki fyrir framkvæmdunum, ekki skriflegt. „Ég hélt að munnlegt samþykki myndi nægja, það var líklega einfeldni af minni hálfu. En ég er hins vegar talsmaður þess að fólk megi alltaf skipta um skoðun, hvort sem það hefur áður sagt eitthvað eða skrifað.“

Uppbyggingin skilar árangri

Hann segir að nú verði að endurmeta næstu skref. Hann sé enn sannfærður um að besti kosturinn sé að gera úrbætur á gönguleiðinni við ána. „Það er að mínu mati engin lausn að stoppa umferðina. Ef það reynist leyfilegt þá veit ég ekki alveg hvernig við snúum okkur.“

Í sumar hefur verið mikil úrkoma á svæðinu líkt og víðast annars staðar á Suður- og Vesturlandi. Því hefur stígurinn við Hlauptungufoss látið á sjá. Allt annað er uppi á teningnum á þeim köflum leiðarinnar sem búið er að bera í. „Það hefur lagast 100% eftir að við byggðum upp stíginn,“ segir Rúnar. „Það er alveg tvennt ólíkt, eins og svart og hvítt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert