Kláfur upp Skálafell í umhverfismat

Skálafell séð úr Norðlingaholti í Reykjavík.
Skálafell séð úr Norðlingaholti í Reykjavík. Árni Sæberg

Skipulagsstofnun hefur úrskurðað að fyrirhuguð bygging kláfs upp Skálafell skuli fara í umhverfismat. Þetta kemur fram í úrskurði stofnunarinnar sem var birtur á heimasíðu hennar fyrir helgi.

Fyrirtækið Skálafell Panorama hefur hug á að byggja þjónustumiðstöð við rætur og á toppi fjallsins og tengja þær saman með kláfi. Kláfurinn færi um 2000 metra, en hækkunin er 400 metrar.

Í þjónustumiðstöðvunum verður verslun og veitingasala en gert er ráð fyrir sérstökum veitingastað á toppi fjallsins. Vonir standa til að um 150 þúsund gestir fari með kláfinum árlega, þar af um 100 þúsund yfir sumartímann að því er fram kemur í umsókn til Skipulagsstofnunar.

Reikna megi með að fleiri muni sækja svæðið að framkvæmdum loknum til að njóta útsýnis, norðurljósa, fara í gönguferðir og á skíði heldur en við núverandi aðstæður. Gestum muni fjölga mest á sumrin en svæðið er lítið nýtt á þeim árstíma.

Á veturna myndi hann einnig nýtast sem skíðakláfur, en Skálafell er eitt tveggja skíðasvæða í nágrenni höfuðborgarinnar. Dæmi eru um það erlendis frá að kláfar nýtist bæði skíðamönnum og til að ferja fólk á veitingahús, til að mynda á fjallinu Zugspite, sem er hæsta fjall Þýskalands.

Framkvæmdasvæðið úr 5 kílómetra fjarlægð. Búið er að teikna 10 …
Framkvæmdasvæðið úr 5 kílómetra fjarlægð. Búið er að teikna 10 metra hátt þjónustuhús á toppi Skálafells inn á myndina, en það er vart greinanlegt. Ljósmynd/Skipulagsstofnun

Umfangsmikil framkvæmd

Í úrskurði Skipulagsstofnunar kemur fram að óvissa sé um áhrif fyrirhugaðra framkvæmda. Hún sé umfangsmikil og ekki reynsla af slíkum hérlendis, enda enginn kláfur í landinu. 

Byggingin er áformuð á svæði sem þegar er skíðasvæði og ber merki mannvirkjagerðar og röskunar en uppsetning kláfsins og bygging þjónustuhúsa mun þó breyta ásýnd svæðisins töluvert.

Áætlanir gera ráð fyrir að 14 stálmöstur með steyptum undirstöðum haldi línunni, sem kláfurinn ferðast eftir, uppi. Möstrin verða um 7-15 metra há og nauðsynlegt að grafa fyrir undirstöðunum.

Klefar kláfsins eiga að rúma allt að 8 farþega hver og gert ráð fyrir að kláfurinn geti ferjað um 1.200 manns á klukkustund.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert